Smá heimavinna og svo fundað á morgun

Samninganefndir Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga og ríkisins á fundi hjá ríkissáttasemjara …
Samninganefndir Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga og ríkisins á fundi hjá ríkissáttasemjara í gær. mbl.is/Árni Sæberg

Samningaviðræðum ríkisins og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga hefur miðað vel í dag. Þetta segir Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari, sem er ánægður með vinnu samninganefndanna. 

Fundur hófst klukkan 13 í Karphúsinu, húsakynnum ríkissáttasemjara, og gert er ráð fyrir að honum ljúki klukkan sex. Kjarasamningar hjúkrunarfræðinga hafa nú verið lausir í rúmt ár, en kjaradeilunni var vísað til ríkissáttasemjara í febrúar.

Hann segir samninganefndirnar hafa fengið „pínulitla heimavinnu“ sem felist í að yfirfara ýmis álitaefni og taka afstöðu til þeirra. Þá verði fundað að nýju á morgun, föstudaginn langa, klukkan 13.

Nokkur atriði standa enn út af, en Aðalsteinn segist ekki geta gefið nánari upplýsingar um þau. „Þetta eru svolítið flóknir og þungir samningar og við erum að vinna með ýmis álitaefni,“ segir hann. Þá treystir hann sér ekki til að fullyrða um hvort samninganefndir séu farnar að sjá í land í viðræðunum. „Það er ekki búið að semja fyrr en það er búið að semja um allt, svo ég þori ekki að segja neitt svoleiðis.“

Vaktavinnusamkomulag mikilvægur áfangi

Aðalsteinn bætir við að mikilvægur áfangi hafi náðst með samningum um breytingu á vaktavinnufyrirkomulagi ýmissa opinberra starfsmanna, sem felur í sér styttingu vinnuvikunnar.

Samkomulag um það náðist í síðasta mánuði hjá starfs­hópi full­trúa BSRB, BHM, Fé­lags ís­lenskra hjúkr­un­ar­fræðinga og Efl­ing­ar og viðsemj­end­a hjá ríki, borg og Sam­bandi ís­lenskra sveit­ar­fé­laga og var það meðal annars forsenda samninga BSRB og Sameykis við ríkið í síðasta mánuði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert