Safna reynslusögum af fordómum innan kirkjunnar

Frá Gleðigöngu síðasta árs. Engin Gleðiganga verður þetta árið vegna …
Frá Gleðigöngu síðasta árs. Engin Gleðiganga verður þetta árið vegna útbreiðslu kórónuveiru. mbl.is/Árni Sæberg

Þjóðkirkjan boðar til kynningafundar á morgun, laugardag, á verkefninu Ein saga - eitt skref. Markmið verkefnisins er að „gera upp og læra af sögu misréttis gagnvart hinsegin fólki innan kirkjunnar. Fyrsta skrefið verður að safna persónulegum reynslusögum af fordómum og andstöðu Þjóðkirkjunnar við réttindi hinsegin fólks í gegnum árin“, segir í fréttatilkynningu frá Þjóðkirkjunni. 

Sett hefur verið upp sögusíða þar sem hver og einn, sem geymir sögu sem hann/hún/hán vill deila, getur fyllt út form og skilað inn. Sögunum verður safnað saman af Samtökunum '78 en verkefnið er unnið í samstarfi við samtökin. Slóðin á sögusíðuna er www.einsaga.samtokin78.is en hann er ekki virkur sem stendur. 

Verða gerðar opinberar

Sögurnar verða gerðar opinberar næsta vor og verða þær hengdar upp  í kirkjum landsins, „til vitnisburðar og lærdóms. Til vitnis um erfiða sögu sem mikilvægt er að endurtaki sig ekki, en einnig um þjáningu, baráttu og vilja hinsegin fólks til að öðlast viðurkenningu, frelsi og mannréttindi. Með auðmýkt gagnvart sögunni og vilja til að vera framvörður kærleika, mannréttinda og fjölbreytileika í komandi framtíð.“

Upphaflega átti kynningarfundurinn að vera öllum opinn en vegna kórónuveirunnar verður honum streymt á netinu. 

Viðburðurinn verður laugardaginn 8. ágúst í streymi, aðgengilegur á vef kirkjunnar og Samtakanna '78 og hefst kl. 13.00. Streymisslóðin er: https://www.youtube.com/watch?v=_ysmzA45a_Q&feature=youtu.be.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert