Farbann í máli dæmds barnaníðings

Samsett mynd

Landsréttur hefur staðfest farbannsúrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur í máli manns sem hafði verið dæmdur í fangelsi erlendis fyrir ítrekuð kynferðisbrot gegn barnungri frænku sinni. 

Er manninum gert að sæta farbanni til 30. nóvember. 

Fram kemur í úrskurði héraðsdóms að lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu hafi borist evrópsk handtökuskipun á hendur erlendum karlmanni sem var eftirlýstur, en hann hafði verið dæmdur til sex ára fangelsisrefsingar sem hann átti eftir að afplána.

Samkvæmt handtökuskipuninni var maðurinn sakfelldur fyrir ítrekuð kynferðisbrot gegn barnungri frænku sinni með því að hafa þrisvar sinnum í mars 2013 neytt hana til samræðis með ofbeldi og hótununum. Afbrotin eru skilgreind sem nauðgun og þeim lýst nánar sem ítrekuðum kynferðisbrotum gegn barni.

Í úrskurðinum segir að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafi handtekið manninn í síðustu viku þar sem hann var upplýstur um handtökuskipanina. Maðurinn kvaðst kannast við málsatvik og að eftirlýsingin ætti við um hann. Hann neitaði aftur á móti sök í málinu. 

Bent er á að maðurinn er erlendur ríkisborgari, án lögheimilis og með lítil tengsl við Ísland. Fór lögreglan því fram á að maðurinn yrði úrskurðaður í fjögurra vikna langt gæsluvarðhald eða sæta farbanni í 70 daga, enda mætti ætla að maðurinn myndi reyna að komast úr landi, leynast og koma sér með öðrum hætti undan fullnustu þeirrar refsingar sem bíður hans. 

Þá kemur fram í úrskurðinum, að maðurinn hafi verið hér á landi frá febrúar 2014 og búi hér ásamt eiginkonu sinni, auk þess sem hann hafi stundað atvinnu hér á landi. Héraðsdómur féllst á það með lögreglustjóra að ætla megi að maðurinn reyni að komast úr landi eða forða sér með öðrum hætti undan fullnustu refsingar en taldi ekki þörf á að úrskurða manninn í gæsluvarðhald. Varð farbann til 30. nóvember því niðurstaðan sem Landsréttur staðfesti. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert