Mygla í nýbyggingu Vogaskóla

Frá Vogaskóla.
Frá Vogaskóla. Ljósmynd/Vogaskóli

Mygla hefur komið í ljós á kennslusvæðum í Vogaskóla á annarri hæð í nýbyggingu skólans sem og á skrifstofum á jarðhæð. Þetta mun hafa áhrif á skólastarfið en búið er að óska eftir alhliða úttekt á öllu skólahúsnæðinu og loftræstikerfi hússins í kjölfar þessara fregna.

Þetta kemur fram í tölvupósti frá skólastjóra Vogaskóla til foreldra nemenda.

Þar segir að í lok ágúst hafi verið farið fram á að ákveðinn hluti af húsnæði skólans yrði skoðaður sérstaklega með tilliti til gæða innivistar. Í vikunni hafi borist frumskýrsla með niðurstöðum þar sem m.a. kemur fram að mygla hafi fundist á kennslusvæðum nemenda í 4. og 5. bekk.

Leita eftir húsnæði

„Virkjaður hefur verið nýr verkferill Reykjavíkurborgar um rakaskemmdir og myglu. Ég hef fundað með aðilum frá Reykjavíkurborg og verkfræðistofunum Eflu og Verksýn. Verið er að vinna verkáætlun sem miðar að því að rýma þessi svæði og ráðast í viðgerðir. Einnig er verið að leita eftir húsnæði sem hægt er að nýta fyrir skólastarfið á meðan á viðgerðum stendur,“ segir í póstinum frá Snædísi Valsdóttur skólastjóra.

„Formaður foreldrafélags Vogaskóla hefur verið upplýstur um málið og fundað verður með skólaráði á mánudaginn.“

Biðla til foreldra að sýna þolinmæði

Í póstinum segir Snædís að þetta muni augljóslega hafa áhrif á skólastarf en að allar ákvarðanir og áætlanir verði gerðar með hagsmuni nemenda að leiðarljósi. 

„Við biðlum til ykkar, kæru foreldrar, um góða samvinnu, tillitssemi og þolinmæði í þessu verkefni sem fram undan er,“ segir í póstinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert