Forstjóri Sjúkratrygginga segir upp störfum

María Heimisdóttir tók við embætti forstjóra Sjúkratrygginga Íslands árið 2018.
María Heimisdóttir tók við embætti forstjóra Sjúkratrygginga Íslands árið 2018. Ljósmynd/Oscar Bjarnason

María Heimisdóttir, forstjóri Sjúkratrygginga Íslands, hefur sagt upp starfi sínu vegna vanfjármögnunar stofnunarinnar, að því er fram kemur í bréfi sem hún sendi starfsfólki í morgun. Stundin greindi fyrst frá.

Morgunblaðið hafði fengið veður af fyrirhugaðri uppsögn og hefur síðustu tvær vikur sent ítrekaðar beiðnir um staðfestingu á uppsögninni til Maríu en hún hefur ekki brugðist við því.

María var á meðal þeirra sem sóttu um stöðu Fram­kvæmda­stjóra þró­un­ar hjá Landspítalanum í síðasta mánuði.

Ekki hægt að ná ásættanlegum árangri

Í bréfi Maríu til starfsfólksins, sem Stundin vísar í, segist hún ekki geta borið ábyrgð á rekstri Sjúkratrygginga við þessar aðstæður. Fjárveitingar stofnunarinnar hafi lækkað síðan 2018 ef reiknað væri á föstu verðlagi.

Ekki hefði tekist að styrkja rekstrargrundvöll til að ná ásættanlegum árangri svo hægt væri að uppfylla lögboðnar skyldur og bjóða samkeppnishæf laun.

Uppsögnin mun hafa verið rædd á stjórnarfundi Sjúkratrygginga á fimmtudag en þar upplýsti María að hún hefði sent heilbrigðisráðherra uppsagnarbréf.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert