Umsóknum um læknismeðferð erlendis fjölgað um 270%

Veruleg fjölgun hefur orðið í nær öllum flokkum erinda og …
Veruleg fjölgun hefur orðið í nær öllum flokkum erinda og umsókna.

Umsóknum til Sjúkratrygginga Íslands um meðferð erlendis vegna langs biðtíma hér á landi fjölgaði um 270 prósent á milli áranna 2018 og 2022.

Þá hefur umsóknum um brýna meðferð erlendis, sem ekki er hægt að veita hér á landi vegna skorts á sérhæfðri þekkingu eða tækjabúnaði, fjölgað um tæplega 50 prósent.

Umsóknir um lyfjaskírteini hafa tvöfaldast á tímabilinu og nú eru afgreiddar um 150 umsóknir á hverjum degi.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Sjúkratryggingum Íslands. Veruleg fjölgun hafi orðið í nær öllum flokkum erinda og umsókna til stofnunarinnar.

Verkefnum fjölgar en framlög lækka

Á síðasta ári gerðu Sjúkratryggingar næstum þrefalt fleiri nýja samninga en árið 2018, áður en heilbrigðisstefna var gefin út. Mikla aukningu á síðasta ári má að hluta til rekja til Covid en það sem af er ári 2022 hafa verið gerðir yfir þriðjungi fleiri samningar en allt árið 2018. Þrátt fyrir það hafa ekki enn náðst samningar um þjónustu sjúkraþjálfara og sérgreinalækna

Aukna framleiðni stofnunarinnar við samningagerð má rekja til krafna heilbrigðisstefnu, sem sett var árið 2019, og auknum framlögum til heilbrigðisþjónustu, að fram kemur í tilkynningunni. Á sama tíma og verkefnum hefur fjölgað hafa föst opinber framlög til rekstrar Sjúkratrygginga hins vegar lækkað á föstu verðlagi.

mbl.is