Hópurinn kominn til Hatay

Björgunarfólk lagði í hann í fyrradag.
Björgunarfólk lagði í hann í fyrradag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Björgunarfólk Landsbjargar, fulltrúi utanríkisráðuneytisins og tveir fulltrúar Landhelgisgæslunnar eru komnir til héraðsins Hatay í Tyrklandi, til þess að sinna aðgerðum vegna jarðskjálftanna sem þar riðu yfir í fyrradag.

Staðfest er að fleiri en 11.200 manns eru látnir en fólk finnst þar enn grafið undir rústum.

Vél Icelandair flaug með íslenska hópinn, sem lenti á flugvellinum í Gaziantep klukkan sjö í morgun að tyrkneskum tíma.

Næst var hópurinn sendur til Hatay-héraðs og verður hann með bækistöð í bænum Antakya, að sögn Jóns Þórs Víglundssonar, upplýsingafulltrúa Landsbjargar. Alls eru níu manns í hópn­um, þar á meðal læknir og verkfræðingur.

Svava Ólafsdóttir björgunarsveitarmaður tekur til búnað í tösku í Skógarhlíðinni …
Svava Ólafsdóttir björgunarsveitarmaður tekur til búnað í tösku í Skógarhlíðinni í fyrradag. Hópurinn er kominn til Tyrklands. mbl.is/Sigurður Bogi

Vel gekk að komast á svæðið

„Þau þurftu að lenda langt frá þeim bæ sem þeim var úthlutað verkefnum í. En það er ekki langt síðan þau komust í stjórnstöð og fengu úthlutuð svæði.“

Fulltrúi utanríkisráðuneytis var með í för til þess að auðvelda hópnum innkomu í landið en tveir fulltrúar Landhelgisgæslunnar slógust einnig með í för.

Hópurinn er enn að koma sér fyrir að sögn Jóns.

„Flugið gekk mjög vel. Starfsmenn Icelandair gerðu allt sem þeir mögulega gátu til þess að gera þetta eins auðvelt og mögulegt væri.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert