Kolbrún: Eurovision er lágmenning

Í nýjasta þætti Spursmála er Kolbrún Bergþórsdóttir, bókagagnrýnandi og blaðamaður á Morgunblaðinu spurð út í það hvað henni finnist um þá ákvörðun Gísla Marteins Baldurssonar að lýsa ekki Eurovision sem fram fer í Malmö í Svíþjóð seinna í vor.

Hún telur að góða fólkið sé mjög hrifið af ákvörðuninni.

Viðskiptabönn og bannsetningar virka ekki

„Og þyki þetta eina rétta ákvörðunin. Ég hefði kannski verið á þessari skoðun ef ég væri þrítug. En með árunum hef ég eiginlega komist á þá skoðun á viðskiptabönn og bannsetningar virki mjög illa. Og svo er það einfaldlega þannig að maður verður að gera greinarmun á ríkisstjórn og fólkinu í landinu. Líka hér á landi þannig að ég held því fram að list sameini fólk. Ég harðneita því að ísraelska þjóðin sé uppfull af vondu fólki. Það er bara bull.“

En þú segir að listin sameini fólk, þú skilgreinir þetta sem list fullum fetum?

„Þetta er lágmenning en hún á líka rétt á sér þótt við Brynjar séum ekki þar,“ segir Kolbrún.

En þetta verður ekki þægilegt fyrir þann sem tekur að sér að lýsa útsendingunni eftir allt sem á undan er gengið. Hver tekur að sér slíkt óþurftarverk?

„Ég veit það ekki. Það verður einhver hugrökk manneskja. Hún má virkilega vera hugrökk,“ segir Kolbrún.

„Það verða einhverjir fávitar bara,“ bætir Brynjar við.

Við erum alla vega með hugmynd um það hvern við viljum fá í þetta verk.

Viðtalið við Kolbrúnu og Brynjar Níelsson má sjá og heyra í heild sinni hér fyrir neðan:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert