Skúli nýr sviðsstjóri hjá Netöryggismiðstöð Íslands

Skúli Bragi Geirdal, sérfræðingur í miðlalæsi hjá Fjölmiðlanefnd, er nýr …
Skúli Bragi Geirdal, sérfræðingur í miðlalæsi hjá Fjölmiðlanefnd, er nýr sviðsstjóri SAFT - Netöryggismiðstöðvar Íslands. Ljósmynd/Aðsend

Skúli Bragi Geirdal fjölmiðlafræðingur er nýr sviðsstjóri SAFT – Netöryggismiðstöðvar Íslands (Safet Internet Center á Íslandi). SAFT er vakningarátak um örugga tækni- og miðlanotkun á Íslandi.

Skúli, sem er fjölmiðlafræðingur að mennt, er sérfræðingur í miðlalæsi hjá Fjölmiðlanefnd. 

Síðastliðin þrjú ár hefur hann leitt þar verkefni á sviði upplýsinga- og miðlalæsis. Einnig hefur hann starfað sem stundakennari í fjölmiðlafræði við Háskólann á Akureyri frá árinu 2021.

„Þegar við hugsum um netöryggi er fyrsta hugsunin yfirleitt að tryggja innviði og þar hefur áherslan hér á landi verið að mestu leyti hingað til. En ekki má gleyma að upplýsinga- og miðlalæsi er algjör lykilhæfni þegar hugað er að netöryggi almennings. Upplýsingaóreiða og falsfréttir hefur engin landamæri,“ er haft eftir Skúla í tilkynningu.

„Því er mikilvægt að við bregðumst við með fyrirbyggjandi aðgerðum í formi fræðslu og valdeflingar því netöryggi snýst ekki aðeins um að vernda innviði heldur einnig fólk á öllum aldri. Þjóðaröryggi, lýðræði og lýðheilsa eru undir og því er þetta málaflokkur sem hefur snertiflöt við öll ráðuneyti og þvert á pólitík. Samstaða og samstarf er því algjört lykilatriði til þess að ná árangri á þessu sviði.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert