„Það er enginn að skjóta sendiboðann“

Sigurður Ingi Jóhannsson fjármálaráðherra.
Sigurður Ingi Jóhannsson fjármálaráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármála- og efnahagsráðherra, segir sérkennilegt að fjármálaráð ríkisins hafi sagt fjármálaáætlun vera ótrúverðuga.

Í álits­gerð fjár­málaráðs fyr­ir árin 2025 til 2029 kom fram að staða ís­lensks efna­hags­lífs væri góð en að rík­is­út­gjöld hefðu farið úr hófi fram.

Einnig kom fram að töl­ur um aðhald í rík­is­fjár­mál­um væru ótrúverðugar þar sem þær væru óút­færðar.

„Verðum að fara varlega“

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, var einn þeirra þingmanna sem vakti athygli á álitsgerð fjármálaráðs í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi í dag og beindi fyrirspurn sinni að Sigurði Inga.

„Það er rétt hjá háttvirtum þingmanni að í fjármálaráði er fjallað um að það sé ekki nægur trúverðugleiki yfir hlutum sem gerast hér langt inni í fjármálaáætluninni, sem ég verð að segja að mér finnst vera sérkennilegt þegar verið að tala um aðhald upp á einhverja níu milljarða. Við gerðum það í fjárlögum í fyrra og við munum gera það í fjárlögum þessa árs,“ sagði Sigurður.

Hann sagði að nákvæmlega tiltekið væri ekki ljóst hvað myndi gerast árið 2028.

„Mér finnst ekki vera hægt að halda því fram að það sé skortur á trúverðugleika hjá núverandi ríkisstjórn að hafa ekki listað það nákvæmlega upp. Sérstaklega í ljósi þess sem við höfum séð á síðustu árum, að tekjur hafa verið umtalsvert meiri. En nú verðum við að fara varlega vegna þess að þær eru augljóslega að fara niður,“ sagði Sigurður.

Segir Sigurð skjóta sendiboðann

Þorgerður Katrín sagði Sigurð Inga skjóta sendiboðann og sagði Viðreisn hafa varað við ósjálfbærum ríkissjóð frá árinu 2018. Hún sagði ríkisstjórnina þurfa að fara taka ákvarðanir og gera trúverðuga áætlun í að ná tökum á fjármálunum.

„Það er enginn að skjóta sendiboðann. En þegar hér er komið upp látlaust með sama áróðurinn, alveg sama hvað á dynur. Hér er sagt í fimm ár og það hefur þó alla vega verið kolrangt í hluta af tímanum,“ sagði Sigurður.

Þiggur stuðning Viðreisnar

Þorgerður bauð fram stuðning Viðreisnar við að ná stjórn á fjármálunum í sinni ræðu og svaraði Sigurður því boði.

„Ég ætla bara að halda því hér fram og þigg gjarnan þann stuðning Viðreisnar – að halda áfram að styrkja stöðu heimilanna í landinu, þar sem skuldastaðan er hvað lægst og hefur verið í sögulegu samhengi. Að fyrirtækin búa við það sama,“ sagði Sigurður og bætti við:

„Seðlabankinn metur það svo að það sé skynsamlegt að halda raunvöxtum alveg gríðarlega háum hér næstu mánuði - væntanlega í því skyni að ná niður verðbólgunni mjög hratt. Og ég sé að aðilar úti á markaði hafa tekið því nokkuð jákvætt. Þannig að ég hef fulla trú á því að ef við stöndum saman um það þá munum við ná verðbólgunni hraðar niður en ýmsir spáaðilar eru að tala um.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert