Tók barn upp úr innkaupakerru móður

Krónan við Flatarhraun.
Krónan við Flatarhraun. Ljósmynd/Aðsend

Viðskiptavinur Krónunnar við Flatahraun í Hafnarfirði lenti í óskemmtilegu atviki í versluninni um hádegisbilið í gær þar sem hún var að versla ásamt þriggja ára syni sínum.

„Ég var í grænmetisdeildinni í versluninni um hádegisbilið í gær þegar maður kom aftan að mér og syni mínum sem sat í búðarkerrunni. Fyrirvaralaust setti þessi maður hendurnar undir hendurnar á syni mínum og lyfti honum upp úr kerrunni. Ég hvæsti á hann og spurði hvern fjárann hann væri að gera þá sagðist honum finnast þetta ógeðslega fyndið og að grínið væri að taka son minn og setja hann í kerruna sína,“ segir konan við mbl.is en hún vildi ekki láta nafns síns getið.

„Djöfull áttu erfitt með að njóta lífsins“

Konan segir að maðurinn sem er íslenskur á bilinu 50-55 ára, hafi sagt við sig: „Djöfull átt þú erfitt með að njóta lífsins.“ Hún segir að hann hafi verið allsgáður og hafi litið mjög eðlilega út.

„Mér krossbrá og ég fann starfsmann Krónunnar með merki vaktstjóra og lýsti fyrir honum aðstæðum og hvað hafi gerst. Í kjölfarið kallaði hann á tvo starfsmenn sem fundu manninn með minni leiðsögn og fleygðu manninum á dyr. Þegar verið var að vísa manninum út þá hélt hann áfram að garga fúkyrðum að mér.“

Hún segist hafa sagt skýrt við hann að ef hann vogaði sér að taka eitt skref í átt að syni sínum þá mætti hann vita að hún sé búin að æfa MMA og sé með gráðu í bardagaíþróttinni og væri hiklaust tilbúin til að beita sér ef svo bæri undir.

Tilkynnti málið til lögreglu

„Það var kona með honum og ég náði nafni mannsins frá henni. Ég er búin að hafa uppi á honum og hef tilkynnt málið til lögreglu sem lítur málið mjög alvarlegum augum þar sem um barn er að ræða. Ég fékk þær upplýsingar frá lögreglunni að rannsóknardeildin muni taka málið til skoðunar,“ segir konan.

Hún segir að tvær konur sem voru í versluninni hafi aðstoðað sig. Önnur hafi hlúð að syni sínum en hin að henni sjálfri.

„Það að ég hafi þurft að þjarma að barni sem er á leikskólaaldri um að ef einhver snerti hann sem hann þekkir ekki þá þurfi hann að öskra eins og dreki er ekki eðlilegt. Var þessi maður að gera þetta í fyrsta skipti, er hann að fara að gera þetta aftur og eru fleiri að gera svona lagað? Þetta er mjög alvarlegt mál og ég er að jafna mig á þessu.“

Guðrún Aðalsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Krónunnar, segir við mbl.is að það hafi komið upp atvik í verslun Krónunnar við Flatahraun í gær. Hún segir að ef til kæru komi að hálfu konunnar til lögreglu þá fari málið sinn farveg og að Krónan sé reiðubúin að vinna með henni, fara eftir þeim ferlum sem því fylgja og veita þær upplýsingar sem þurfi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert