Mótmæla þróun gervigreindar

Í aðdraganda AI Safety ráðstefnu sem haldin verður 21. maí …
Í aðdraganda AI Safety ráðstefnu sem haldin verður 21. maí í Suður-Kóreu verður PauseAI hreyfingin með sambærileg mótmæli um allan heim og eru mótmælin á Austurvelli haldin í samstöðu með henni. Ljósmynd/Colourbox

Hópur fólks mótmælti þróun gervigreindar á Austurvelli í dag. Einn skipuleggjenda mótmælanna segir markmið dagsins ver aða vekja athygli á nauðsyn þess að tímabundin pása á þróun gervigreindar verði tekin á alþjóðavísu. 

Í aðdraganda AI Safety ráðstefnu sem haldin verður 21. maí í Suður-Kóreu verður PauseAI hreyfingin með sambærileg mótmæli um allan heim og eru mótmælin á Austurvelli haldin í samstöðu með henni.

Aþena Ýr Ingimundardóttir, einn skipuleggjenda, segir í samtali við mbl.is að of margar mögulegar áhættur fylgi tækninni sem við vitum voðalega lítið um og að mikilvægt sé að vita hvað við erum að gera áður en við höldum þróuninni áfram.

Gervigreind gæti valdið tortímingu mannkyns

Meðal þess sem mótmælendurnir hafa áhyggjur af er að gervigreind muni leiða af sér tortímingu mannkyns.

Aþena útskýrði að margt gæti gerst sem gæti valdið því. Meðal annars segir hún að mannkynið hafi ekki verið nógu skýrt um hvað það er að biðja gervigreindina um og því gæti hún sett það að verja sjálfa sig fyrir utanaðkomandi hættum, eins og til dæmis manneskjum, í forgang.

Gervigreindin gæti þannig líka skapað sín eigin markmið. Gervigreindin getur hannað skaðlegar örverur og eitrað lífrænt efni og ekkert kemur í veg fyrir að það lendi í höndum hryðjuverkamanna.

Skipuleggjendur mótmælanna hafa tekið þátt í námskeiði um stjórnun gervigreindar og hafa þar komist á þá skoðun að ekki sé nóg að skapa löggjöf í kringum notkun gervigreindar heldur þarf að stöðva áframhaldandi þróun hennar, að minnsta kosti tímabundið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert