Staðfesti stjórnunar- og verndaráætlun Þjórsárdals

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, og Haraldur Þór …
Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, og Haraldur Þór Jónsson, sveitastjóri og oddviti Skeiða- og Gnúpverjahrepps. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, hefur staðfest stjórnunar- og verndaráætlun fyrir landslagsverndarsvæðið Þjórsárdal.

Þetta kemur fram í tilkynningu Stjórnarráðsins.

Hluti Þjórsárdals var friðlýstur sem landslagsverndarsvæði árið 2020. Er friðlýsingunni ætlað að vernda sérstæðar jarðmyndanir og landslag sem er sérstætt á landsvísu vegna fagurfræðilegs og menningarlegs gildis, að því er fram kemur í tilkynningunni. 

Innan hins friðlýsta svæðis eru náttúruvættin Gjáin, Háifoss og Granni og Hjálparfoss. 

Friðlýsingin stuðli að vernd

Á friðlýsingin að stuðla að vernd líffræðilegrar fjölbreytni með verndun vistkefa og endurheimt raskaðra vistkerfa með áframhaldandi vinnu við uppgræðslu og endurheimt birkiskóga.

Þá var menningarlandslag Þjórsárdals  friðlýst af þáverandi mennta- og menningarmálaráðherra árið 2021 og var sú friðlýsing á grundvelli laga um menningarminjar.

Í stjórnunar- og verndaráætluninni sem nú hefur verið samþykkt er lögð fram stefnumótum til framtíðar, ásamt aðgerðaáætlun til þriggja ára, en áætlunin var unnin í samstarfi Umhverfisstofnunar, landeigenda og annarra hagaðila. Svæðið er auk þess að hluta til innan þjóðlendumarka.

Stendur nærri hjarta Íslendinga

„Þjórsárdalur er stórfenglegt svæði, með stöðum eins og Gjánni, Háafossi og Hjálparfossi, sem stendur nærri hjarta okkar Íslendinga. Það á sér líka afar langa og merkilega sögu sem fjöldi fornbýla og annarra minja vitnar um. Heimamenn eru mjög áhugasamir og vilja hlúa vel að Þjórsárdal og metnaður ríkir um að vel sé staðið að öllu á svæðinu. Meginmarkmið stjórnunar- og verndaráætlunar er að leggja fram stefnu um verndun svæðisins og hvernig viðhalda skuli verndargildi þess þannig að sem mest sátt ríki um,“ er haft eftir Guðlaugi Þór í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert