Pétur Jökull ákærður í stóra kókaínmálinu

Pétur Jökull Jónasson hefur verið ákærður í stóra kókaínmálinu.
Pétur Jökull Jónasson hefur verið ákærður í stóra kókaínmálinu. Samsett mynd

Héraðssaksóknari gaf í dag út ákæru á hendur Pétri Jökli Jónassyni í tengslum við stóra kókaínmálið svokallaða. 

Greindi RÚV frá ákærunni á hendur Pétri en í samtali við mbl.is staðfesti Jón Gunnar Sigurgeirsson, lögreglufulltrúi hjá miðlægri rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, að málið væri komið á borð héraðssaksóknara. Kvaðst hann ekki getað staðfest hvort formleg ákæra hefði verið gefin út. 

Jón Gunnar staðfestir þó að rannsókn hafi snúið að meintri aðild Jökuls að smygli á 99,25 kílógrömmum af kókaíni í timbursendingu frá Brasilíu til Íslands.

Þrír hlotið þunga dóma

Þrír hafa þegar verið dæmdir í málinu sem er stærsta kókaínmál Íslandssögunnar og féllu þungir dómar yfir þeim árið 2022.

Þyngsta dóm­inn hlaut Páll Jóns­son timb­ur­sali en dóm­ur hans var mildaður úr tíu árum í níu ár í Lands­rétti. Hann stóð að baki timb­ur­send­ing­unni frá Bras­il­íu sem toll­verðir í Hollandi lögðu hald á, en efn­in voru fal­in í sjö trjá­drumb­um.

Voru dómarnir einnig mildaðir yfir hinum þremur, þeim Birg­i Hall­dórs­syni, Daða Björns­syni og Jó­hann­esi Páli Durr. Hlaut Birgir sex og hálft ár og Daði og Jóhannes fimm ára fangelsi.

Töluðu allir um „Nonna“

Lögregla hafði hug á að ræða við Pétur allt frá því handtöku þremenninganna sem voru dæmdir og skorað var á Pétur að gefa sig fram við lögreglu. Varð Pétur þó ekki við þeirri beiðni fyrr en tveimur árum síðar er alþjóðalögreglan Interpol lýsti eftir honum að beiðni lög­regl­unn­ar á höfuðborg­ar­svæðinu.

Pétur Jökull ferðaðist að lokum til landsins án fylgdar lögreglu í febrúar á þessu ári og var handtekinn við komu á Keflavíkurflugvelli.

Ekki liggur fyrir hver aðild Péturs er að málinu en þeir þrír dæmdu hafa haldið því fram að þeir séu ekki höfuðpaurar í málinu. Hafa þeir allir talað um ónafngreindan fjórða aðila sem þeir kalla „Nonna“ er hafi gefið þeim skipanir í verknaðinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert