Pétur Jökull handtekinn við komu til Íslands

Pétur Jökull Jónasson hefur verið eftirlýstur.
Pétur Jökull Jónasson hefur verið eftirlýstur.

Pétur Jökull Jónasson, sem eftirlýstur var hjá Interpol í tengslum við innflutning í stóra kókaínmálinu svokallaða, hefur verið handtekinn. Hann var handtekinn við komu til Íslands í gær. 

Í yfirlýsingu frá lögreglu segir að Pétur Jökull hafi verið úrskurðaður í vikulangt gæsluvarðhald.

„Hann var handtekinn við komuna til landsins í gær og færður samdægurs fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur þar sem fyrrnefndur úrskurður var kveðinn upp,“ segir í yfirlýsingu. 

Ekki er komið að því í yfirlýsingu hvar Pétur Jökull hefur haldið sig þar til hann kom til Íslands. 

„Eftirlýsingin hjá Interpol var birt að beiðni Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og er tilkomin vegna tilraunar til innflutnings á tæplega 100 kg af kókaíni frá Brasilíu til Íslands.  Rannsókn á nefndum innflutningi var unnin á vegum Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, lögreglunnar á Suðurnesjum og embætta ríkislögreglustjóra og héraðssaksóknara,“ segir enn fremur í yfirlýsingu. 

Ferðaðist sjálfur til Íslands

Grímur Grímsson hjá rannsóknardeild lögreglunnar segir í samtali við mbl.is að Pétur Jökull hafi ferðast sjálfur til Íslands og að hann hafi ekki verið í haldi erlendra yfirvalda til þessa. Hann tjáir sig ekki um það hvaðan Pétur Jökull var að koma. 

Þungir dómar féllu

Þungir dómar féllu yfir öðrum sakborningum í málinu. 

Þyngsta dóm­inn hlaut Páll Jóns­son timb­ursali, en dóm­ur hans var mildaður úr tíu árum í níu ár í Lands­rétti. Hann stóð að baki timb­ursend­ing­unni frá Bras­il­íu sem toll­verðir í Hollandi hald­lögðu, en efn­in voru fal­in í sjö trjá­drumb­um.

Lands­rétt­ur mildaði einnig dóma yfir hinum þrem­ur. Birg­ir Hall­dórs­son, sem hafði hlotið átta ára dóm í héraði, hlaut sex og hálft ár í Lands­rétti. Dóm­ur Daða Björns­son­ar, sem fékk sex ár og sex mánuði í héraði, var mildaður í fimm ár og dóm­ur yfir Jó­hann­esi Páli Durr var mildaður úr sex árum í fimm ár í Lands­rétti.

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert