„Höfum viljað ná tali af honum“

Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn kveður það fátítt að lögregla lýsi eftir …
Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn kveður það fátítt að lögregla lýsi eftir grunuðum afbrotamönnum á alþjóðavettvangi, líkast til nái það ekki yfir eitt skipti á ári. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við höfum verið með hann til rannsóknar og lokið rannsókn hvað varðar aðra einstaklinga í máli er varðar innflutning á töluverðu magni af kókaíni,“ segir Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn hjá miðlægri rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is um mál Péturs Jökuls Jónassonar.

Hefur lögregla lýst eftir Pétri Jökli á alþjóðavettvangi með fulltingi alþjóðalögreglunnar Interpol vegna gruns um aðild hans að stóra kókaínmálinu svokallaða sem varðaði flutning 99,25 kílógramma af efninu frá Brasilíu til Íslands.

Fátítt að lýst sé eftir grunuðum gegnum Interpol

„Við höfum viljað ná tali af honum ekki tekist og þess vegna er gripið til þessa úrræðis,“ útskýrir yfirlögregluþjónninn og bætir því við aðspurður að fátítt sé að lögregla gefi út eftirlýsingu alþjóðlega. „Ég held að það nái ekki yfir eitt skipti á ári en þetta kemur fyrir,“ segir Grímur og kveður slíka eftirlýsingu meðal annars fela í sér eftirlit á landamærum.

Lögreglu segir hann ekkert vita um hvar í heiminum Pétur Jökull kunni að vera staddur um þessar mundir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert