„Þá væri ég ekki að gefa kost á mér í þetta embætti“

Á forsetafundi Morgunblaðsins og mbl.is á Akureyri var Katrín Jakobsdóttir spurð af fundargesti hvort hún hefði svikið vinstrimenn í landinu.

„Ef ég teldi að ég hefði svikið þjóðina þá væri ég ekki að gefa kost á mér í þetta embætti. Ég held að fólk hafi kynnst mér ágæt­lega sem stjórn­mála­manni og viti ósköp vel að í stjórn­mál­um myndi ég alltaf gera það sem í raun og veru er gagn­rýnt mest, það er að segja að leita lausna, leita mála­miðlana, því að þannig virka lýðræðis­sam­fé­lög,“ sagði Katrín.

Hún sagði að sem forsætisráðherra hefði hún ætíð haft hagsmuni þjóðarinnar að leiðarljósi þrátt fyrir að hafa þurft að gera málamiðlanir.

Vinstrimenn líka hluti af þjóðinni

Stefán Einar Stefánsson bað hana um að svara því nán­ar hvort hún hefði svikið vinstri­menn og þá sagði hún að vinstri­menn væru líka hluti af þjóðinni.

„Ég átta mig alveg á fyrir hvað ég er gagnrýnd og hafa gert of miklar málamiðlanir, ekki náð nægjanlegum árangri. En það einfaldlega fylgir því að leiða fjölflokka ríkisstjórn ólíkra flokka, að enginn fær allt sitt.

Eru það svik? Ég vil meina ekki. Einhver kann að kalla það það. En ég segi að þarna voru einfaldlega heildarhagsmunir og þjóðarhagur að leiðarljósi,“ sagði Katrín.

Horfðu á þáttinn í heild sinni:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert