Mun aðeins sýna þjóðinni hollustu

​Forsetafundur Morgunblaðsins á Græna hattinum á Akureyri með Katrínu Jakobsdóttur var fjölsóttur, en á annað hundrað manns gerðu sér leið þangað.

Blaðamennirnir Andrés Magnússon og Stefán Einar Stefánsson stýrðu fundinum og spurðu Katrínu ýmissa spurninga um embætti forseta Íslands og hvernig hún hygðist haga setu sinni í embættinu.

Í upphafi fundar var kynnt glæný skoðanakönnun Prósents þar sem fram kom að Katrín Jakobsdóttir væri í fyrsta sinn með mest fylgi allra frambjóðenda í könnunum Prósents.

Katrín spáði því að fylgið myndi áfram taka breytingum og telur sig enn eiga meira fylgi að sækja. Stefán spurði Katrínu hvort hún teldi að hún hefði átt inni meira fylgi þegar hún tók þá ákvörðun að bjóða sig fram og þá sagði hún:

„Ég hugsaði ekki mikið um það hvernig þetta myndi þróast, ég lét ekki kanna það fyrir fram. Ég vissi ekki hvernig landið lá, enda tekur maður ekki svona ákvörðun nema vilja taka hana. Maður getur ekki reynt að sjá allt fyrir og ég hef nú sagt, eiginlega strax eftir að fyrstu kannanir birtust þá var það mín spá að það yrðu miklar sviptingar í skoðanakönnunum. Við myndum sjá miklar breytingar og að þetta yrðu spennandi kosningar. Ég held að það sé að rætast. Ég held að þetta verði mjög spennandi kosningar,“ sagði Katrín.

Góð stemmning var á vel sóttum fundi Morgunblaðsins á Akureyri …
Góð stemmning var á vel sóttum fundi Morgunblaðsins á Akureyri í gærkvöldi. mbl.is/Brynjólfur Löve

Fylgir utanríkisstefnu

Katrín var ítrekað spurð hvort hún persónulega væri með eða á móti veru Íslands í Atlantshafsbandalaginu (NATO) en hún svaraði því ekki beint. Hún var þó áköf í svörum sínum um að hún myndi fylgja utanríkisstefnu Alþingis.

„Alþingi mótar utanríkisstefnuna, Alþingi hefur mótað þá stefnu að Ísland skuli vera innan Atlantshafsbandalagsins. Sem forsætisráðherra hef ég fylgt þeirri stefnu, sem forseti myndi ég að sjálfsögðu fylgja þeirri stefnu,“ sagði Katrín og bætti við:

„Eins og ítrekað hefur komið fram hjá mér í þessari kosningabaráttu, raunar ólíkt sumum öðrum frambjóðendum, þá geri ég mér grein fyrir því að Ísland er ekki hlutlaust land. Ísland hefur mótað afstöðu og tekið afstöðu með veru sinni í Atlantshafsbandalaginu, með stuðningi við Úkraínu sem við höfum samþykkt á Alþingi Íslendinga og svona mætti lengi telja.“

mbl.is/Brynjólfur Löve

Hún gekk svo enn lengra og sagði að ef ríkisstjórnarmeirihluti yrði myndaður sem reyndi að taka Ísland úr NATO þá myndi hún vísa því til þjóðarinnar.

„Segjum sem svo að Alþingi myndaði nú nýjan meirihluta og segði „við ætlum að segja okkur úr Atlantshafsbandalaginu“. Ég myndi segja, er þetta ekki ákvörðun sem á að koma frá þjóðinni?“ sagði hún og uppskar lófaklapp frá fundargestum.

Í umræðum um hlutverk forseta á alþjóðavettvangi við að kynna íslenskt atvinnulíf sagði hún að það væri vissulega hlutverk forseta að markaðssetja íslensk fyrirtæki.

„Mér finnst það hluti af skyldum forsetans að greiða fyrir íslensku atvinnulífi. Að sjálfsögðu beitir forsetinn sinni dómgreind þar,“ sagði hún.

mbl.is/Brynjólfur Löve

Stefán spurði þá hvort hún myndi greiða fyrir opnun útibús Samherja erlendis.

„Það kemur bara til kasta forseta hverju sinni að leggja á það mat hversu langt á að ganga,“ sagði hún.

En hvernig metur þú þetta tiltekna dæmi?

„Það þýðir ekkert að ræða framtíðarverkefni forsetans í viðtengingarhætti,“ sagði hún og uppskar mikið klapp frá fundargestum.

Reynslan skiptir máli

Andrés rakti orð þeirra sem hafa gagnrýnt hana fyrir reynslu sína úr stjórnmálum og spurði hana hvort það væri vandamál hversu margir litu þá hornauga sem hefðu reynslu úr stjórnmálum. Katrín sagði að íslenskt lýðræðissamfélag væri byggt á því að fólk byði sig fram til starfa á sviðum eins og sveitarstjórnarstiginu og á Alþingi og að fólk kysi í kosningum.

mbl.is/Brynjólfur Löve

„Mér finnst umtalið á köflum vera með þeim hætti að ég held að það virki ekki mjög aðlaðandi að fara í stjórnmál,“ sagði hún og útskýrði að hún þekkti fólk sem hefði hætt við að gefa kost á sér á ýmsum sviðum stjórnmálanna vegna þess hvernig umræðan er um fólk sem gefur kost á sér.

Af öðrum málum á fundinum sagði hún skipta miklu máli að varðveita íslenska tungu, menningu og sögu. Aðspurð hvort hún myndi nota kynhlutlaust málfar eða hefðbundið sagði hún að hún myndi nota hvort tveggja.

Hefur ekki svikið þjóðina

Opnað var fyrir spurningar úr sal og þá spurði einn fundargesta hana út í reynslu hennar úr stjórnmálum og hvernig hún gæti nýst henni. Katrín sagði skipta máli að hafa reynsluna til að skilja strauma stjórnmála samtímans og einnig til þess að skilja hjartslátt þjóðarinnar.

Annar fundargesta spurði þá út í gagnrýni sumra vinstrimanna um að hún hefði svikið vinstrimenn í landinu.

„Ef ég teldi að ég hefði svikið þjóðina þá væri ég ekki að gefa kost á mér í þetta embætti. Ég held að fólk hafi kynnst mér ágætlega sem stjórnmálamanni og viti ósköp vel að í stjórnmálum myndi ég alltaf gera það sem í raun og veru er gagnrýnt mest, það er að segja að leita lausna, leita málamiðlana, því að þannig virka lýðræðissamfélög.“

mbl.is/Brynjólfur Löve

Stefán bað hana þá um að svara því nánar hvort hún hefði svikið vinstrimenn og þá sagði hún að vinstrimenn væru líka hluti af þjóðinni.

„Forseti, ég ætla að leyfa mér að segja þetta, hans hollusta er bara ein og hún er við þjóðina. Mér finnst stóra spurningin vera, hvað treysti ég mér til að segja um það og þá segi ég, ég treysti mér til að sýna engum hollustu nema þjóðinni,“ sagði Katrín.

Ekkert sérstakt norðanfylgi

Fengnir voru tveir álitsgjafar í upphafi fundar til að rýna könnun Prósents og spá í spilin um komandi kosningar. Að þessu sinni voru það þau Þór­hall­ur Jóns­son, versl­un­ar­maður á Ak­ur­eyri, og Kristrún Lind Birg­is­dótt­ir fram­kvæmda­stjóri Ásgarðs.

Þórhallur sagði niðurstöðurnar úr könnun Prósents alls ekki koma sér á óvart, að því leyti að Katrín leiddi. Kristrún tók undir það með honum og sagði ljóst að alvaran væri tekin við í forsetakosningunum og með því myndum við sjá veldisvöxt í fylgi frambjóðenda.

Þórhallur sagði að frambjóðendur hefðu haldið opna fundi á Akureyri í síðustu viku og að þeir hefðu allir verið álíka vel sóttir.

„200-300 manns sem mættu á flesta staði þannig að við sjáum ekkert og ég heyri ekkert afgerandi fylgi einhvers hér – norðanfylgi,“ sagði Þórhallur, spurður hvort greina mætti meira fylgi meðal ákveðinna frambjóðenda á Akureyri.

mbl.is/Brynjólfur Löve

Einn forsetafundur eftir

Kristrún sagði að það hefði að einhverju leyti skort alvörusvör frá frambjóðendum og sagði mikilvægt að velja forseta sem hægt væri að treysta á þegar í harðbakkann slær. Hún taldi að enn meiri breytingar væru fram undan í fylgi frambjóðenda. Hún sagði að hún teldi að Katrín Jakobsdóttir myndi sigra í kosningunum en að Halla Tómasdóttir myndi enda í öðru sæti, eins og árið 2016.

„Þegar fólk fer að tala saman um alvöruhlutina þá vill fólk fá alvörusvör,“ sagði hún og útskýrði að það væri ekki nóg að vera með falleg myndbönd. Það þyrfti að vera innistæða fyrir því sem frambjóðendur væru að segja.

Aðeins einn forsetafundur er eftir í hringferðinni en hann verður á fimmtudaginn, 23. maí, á Park Inn by Radisson í Reykjanesbæ með Höllu Tómasdóttur. Sá fundur verður klukkan 19.30 eins og aðrir forsetafundir Morgunblaðsins.

mbl.is/Brynjólfur Löve
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert