Uggandi um stöðu löggæslumála

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir kveður stöðu löggæslumála ískyggilega vegna aðhaldskröfu.
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir kveður stöðu löggæslumála ískyggilega vegna aðhaldskröfu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Staðan í löggæslunni er bara mjög alvarleg,“ segir Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar, í samtali við mbl.is og á þar við fyrirætlanir stjórnvalda um niðurskurð fjár til löggæslumála sem boðaður er í fjármálaáætlun áranna 2025 til 2029.

Hefur stjórn Landssambands lögreglumanna mótmælt fyrirætlunum stjórnvalda um niðurskurðinn  og hvatt stjórnvöld til að gera betur og falla frá áætlunum sínum.

„Ef við horfum bara á embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu þá starfa þar fjörutíu færri lögreglumenn en árið 2007 þegar embættið var stofnað. Þó hefur mikil fjölgun fólks orðið í landinu, sprenging í fólksfjölda, og allt umhverfi afbrotamála hefur breyst á meðan fækkar í lögreglunni,“ segir Þorbjörg og bætir því við að hér sé um öryggismál að ræða, ferðaþjónustan hafi sprungið út á sama tíma og engin efni séu til að krefja lögregluna um aðhald.

Óskar eftir nefndarfundi

„Í allri þessari vinnu sem við höfum verið í við fjármálaáætlun næstu fimm ára hefur okkur tekist að undanskilja algjöra grunnþjónustu og það eru rökin fyrir því að heilbrigðisþjónustan er undanskilin [niðurskurði] og sömu rök gilda um löggæsluna, það er grunntakturinn í þessu,“ segir Þorbjörg.

Hún hefur óskað eftir fundi fjárlaganefndar um málið of hefur nefndin óskað eftir fundi allra lögregluembætta landsins. „Mér finnst bara mikilvægt að nefndarmenn heyri það frá lögreglu hvað þetta þýðir, frá embættum þar sem 85 prósent af öllum rekstrarkostnaði eru laun þýðir það ekkert annað en fækkun í mannafla,“ segir Þorbjörg að lokum, ómyrk í máli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert