Segja Austur-Hérað tilbúið fyrir verulega íbúafjölgun

Ný íbúðarhús við Litluskóga á Egilsstöðum þar sem húsin rísa …
Ný íbúðarhús við Litluskóga á Egilsstöðum þar sem húsin rísa nú hvert af öðru.

Líflegt er nú á byggingamarkaðnum á Austur-Héraði, talsvert er byggt af íbúðarhúsnæði og eftirspurn eftir byggingarlóðum fer vaxandi. Í nýju aðalskipulagi, sem samþykkt var á síðasta ári, er sveitarfélagið skipulagslega undirbúið fyrir verulega íbúafjölgun á næstu árum, segir á heimasíðu Egilsstaða. Gert er ráð fyrir mestri uppbyggingu á Egilsstöðum, en einnig er gert ráð fyrir að íbúðabyggð vaxi á Hallormsstað og Eiðum.

27 lóðir voru auglýstar til úthlutunar fyrir tæpum tveimur árum í nýjasta íbúðarhverfinu við Litluskóga og Kelduskóga á Egilsstöðum. Þar eru nú 20 íbúðir á ýmsum byggingarstigum og auk þess er á döfinni bygging fjölbýlishúss með 21 íbúð. Sex einbýlishúsalóðum og einni raðhúsalóð er óráðstafað í hverfinu. Í öðrum hverfum hefur verið úthlutað 14 lóðum til byggingar einbýlis- eða parhúsa, sem nú eru á mismunandi byggingarstigum. Auk þess er gert ráð fyrir þremur lóðum til byggingar fjölbýlishúsa við Miðvang, fyrir samanlagt um 50 íbúðir.

Nú er í undirbúningi deiliskipulag á nýju íbúðahverfi í Selbrekku þar sem búist er við að byggja megi í það minnsta 50-60 íbúðir. Gert er ráð fyrir að lóðaúthlutun á Selbrekkusvæðinu geti hafist síðsumars eða haustið 2003. Deiliskipulag til þéttingar byggðar á Egilsstöðum er á lokastigi, en samkvæmt því verða til lóðir fyrir samtals 22 íbúðir.

Eftirspurn eftir lóðum til byggingar íbúða- og atvinnuhúsnæðis hefur verið nokkuð stöðug síðustu þrjú ár. Merkja má aukinn áhuga um þessar mundir, bæði frá einstaklingum og fyrirtækjum. Fari svo að framkvæmdir við álver og virkjun á Austurlandi verði að veruleika, eins og allt bendir til um þessar mundir, er Austur-Hérað reiðubúið til að takast á við þá fólksfjölgun sem spáð er að verði á svæðinu í kjölfarið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert