Ísland tekur þátt í uppbyggingu í Írak að stríði loknu

Ísland er meðal þeirra þrjátíu landa sem utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna lýsti yfir í gær að vildu opinberlega taka þátt í tafarlausri afvopnun Íraka. Fimmtán þjóðir til viðbótar styðja aðgerðirnar en vilja ekki að það komi fram.

Davíð Oddsson, forsætisráðherra, segir fernt felast í þátttöku Íslands í þessari samfylkingu þjóða. "Í þessu felst í fyrsta lagi heimild til yfirflugs yfir íslenska flugumsjónarsvæðið. Í öðru lagi heimilum við afnot af Keflavíkurflugvelli ef þurfa þykir. Í þriðja lagi tökum við þátt í uppbyggingu í Írak eftir að ófriði lýkur. Í fjórða lagi tökum við pólitíska afstöðu með því að ályktun 1441 verði fylgt eftir, að loknu fjögurra mánaða þófi," sagði Davíð.

Löndin 30 eru: Afganistan, Albanía, Ástralía, Aserbaidsjan, Bretland, Danmörk, El Salvador, Erítrea, Eistland, Eþíópía, Filippseyjar, Georgía, Holland, Ísland, Ítalía, Japan, Kólumbía, S-Kórea, Lettland, Litháen, Makedónía, Níkaragúa, Pólland, Rúmenía, Slóvakía, Spánn, Tékkland, Tyrkland, Ungverjaland og Úsbekistan.

Richard Boucher, talsmaður bandaríska utanríkisráðuneytisins, sagði í gær að hvert land legði sitt af mörkum, á þann hátt sem því þætti viðeigandi. Til viðbótar við þessi þrjátíu lönd hefðu a.m.k. fimmtán önnur boðið aðstoð sína, gripi Saddam Hussein til gjöreyðingarvopna. Þau vildu ekki að stuðnings þeirra yrði getið enn sem komið er, en þau mundu senda hersveitir á vettvang, t.d. sérfræðinga í kjarnorku-, lífefna- og efnavopnum gripi Íraksstjórn til slíkra vopna. Þá eru líkur til þess að fleiri þjóðir muni heimila Bandaríkjamönnum aðgang um flughelgi, aðgang að bækistöðvum eða lýsa yfir vilja til friðargæslu og uppbyggingar að átökum loknum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert