Þriðjungur frjálslyndra er frá Sjálfstæðisflokknum

Könnun Félagsvísindastofnunar fyrir Morgunblaðið á fylgi flokkanna leiðir í ljós að þriðjungur þeirra kjósenda sem ætla að kjósa Frjálslynda flokkinn nú kaus Sjálfstæðisflokkinn í síðustu kosningum, 26,5% frjálslyndra kusu Samfylkinguna síðast, aðeins 23,5% þeirra kusu sama flokk, 11,8% Framsóknarflokkinn og 5,9% Vinstri græna.

Er hér eingöngu miðað við þá sem gefa upp hvað þeir kusu fyrir fjórum árum en Félagsvísindastofnun bendir um leið á að fjöldatölur geti verið svipaðar á bakvið mismunandi hlutföll.

Samkvæmt þessari greiningu er Sjálfstæðisflokkurinn að tapa fylgi til allra hinna flokkanna, hlutfallslega mestu til frjálslyndra og Framsóknarflokksins, en Félagsvísindastofnun bendir á að hann sé ekki að sama skapi að fá fylgi frá öðrum flokkum í staðinn. Rúm 95% þeirra sem hyggjast kjósa Sjálfstæðisflokkinn nú, kusu hann líka síðast, rúm 3% kjósenda flokksins nú veittu Framsóknarflokki síðast atkvæði sitt og tæp 2% Samfylkingunni. Sjálfstæðisflokkurinn fær ekki fylgi frá öðrum flokkum.

Rúmur fimmtungur þeirra sem hyggjast styðja Framsóknarflokkinn nú, eða 23%, kaus Sjálfstæðisflokkinn síðast, rúm 65% halda sig við sama flokk og 9% kusu Samfylkinguna síðast. Séu stuðningsmenn Samfylkingarinnar skoðaðir kusu sjö af hverjum tíu flokkinn í síðustu kosningum, rúm 20% koma frá stjórnarflokkunum, 6,5% frá VG og 2,6% frá frjálslyndum. Ríflega helmingur kjósenda Vinstri grænna í dag kaus flokkinn fyrir fjórum árum, 21,6% kusu Samfylkinguna, 13,7% Framsóknarflokkinn og 9,8% Sjálfstæðisflokkinn. Þessar tölur miðast við þá sem afstöðu tóku til stjórnmálaflokka eftir að spurt hafði verið tveggja spurninga í könnun Félagsvísindastofnunar.

Eins og fram kom í Morgunblaðinu í gær sýndi könnunin að ef kosið yrði nú fengi Sjálfstæðisflokkurinn 34,7% atkvæða, miðað við þá sem tóku afstöðu, Samfylkingin fengi 32%, Framsóknarflokkurinn 14,4%, Vinstri hreyfingin - grænt framboð (VG) 9,8%, Frjálslyndi flokkurinn 8%, T-listi Kristjáns Pálssonar og óháðra í Suðurkjördæmi 0,6% og Nýtt afl 0,5%.

Frjálslyndir höfða mest til námsmanna

Félagsvísindastofnun greinir svörin í könnuninni eftir starfi kjósenda. Þá sést að meðal stjórnenda og æðstu embættismanna nýtur Sjálfstæðisflokkurinn 48,4% fylgis en 28% hjá Samfylkingunni. Sérfræðingar og kennarar styðja flestir Samfylkingu, eða 47,2%, 22% Sjálfstæðisflokk og rúm 15% Vinstri græna. Álíka margir tæknar og skrifstofufólk styðja Sjálfstæðisflokk og Samfylkingu, eða rúm 40% á hvorn flokk, en aðrir flokkar í þeim hópi njóta 4-8% fylgis. Meðal þjónustu- og afgreiðslufólks nýtur Sjálfstæðisflokkur 36,7% stuðnings, Samfylkingin 31% og Framsóknarflokkur 17%. Stuðningur sjómanna og bænda dreifist einna mest á flokkana, mest 37,5% á Sjálfstæðisflokk en athygli vekur að Frjálslyndi flokkurinn er þar lægstur með 10,4% fylgi meðal sjómanna og bænda. Hlutfallslega er flokkurinn með mest fylgi hjá námsmönnum, vélafólki og ófaglærðum, eða 12-13,5%. Iðnaðarmenn og sérhæfðir kjósa flestir Sjálfstæðisflokkinn, eða 36,4%, og 28,2% Samfylkingu. Sömu flokkar njóta svipaðs fylgis meðal námsmanna, eða um 33%.

Félagsvísindastofnun ber saman kynja- og starfaskiptingu kjósenda Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar sérstaklega. Þannig ætla 39,1% kvenna sem starfa við þjónustu- og afgreiðslustörf að kjósa Samfylkinguna, 29,7% Sjálfstæðisflokkinn en 31,2% einhvern hinn flokkanna. Meðal karla í starfahópnum vélafólk og ófaglærðir ætla rúm 40% að kjósa Sjálfstæðisflokkinn, 19,2% Samfylkinguna og rúm 40% aðra flokka. Í hópi tækna, skrifstofufólks og fulltrúa ætla 52,9% karla að kjósa Sjálfstæðisflokk og 17,6% Samfylkingu. Meðal kvenna í sama hópi ætla 46,4% að kjósa Sjálfstæðisflokk og 39,3% Samfylkingu. Karlar í hópi sjómanna og bænda hallast mun frekar að Sjálfstæðisflokknum en Samfylkingunni, eða 37,9% á móti 10,3%, en minni munur er hjá konum í sömu störfum, Sjálfstæðisflokknum þó í vil. Hafa ber enn þann fyrirvara á að skekkjumörk í svona greiningu eru allnokkur þar sem mismargir einstaklingar eru í hverjum hópi.

Könnunin var gerð dagana 27.-30. apríl síðastliðinn. Stuðst var við 1.200 manna slembiúrtak úr þjóðskrá er náði til allra landsmanna á aldrinum 18-80 ára. Alls svaraði 791 könnuninni þannig að brúttósvarhlutfall var 65,9%. Nettósvörun var 68,5%, sem er heldur meira en í síðustu könnun, en þá hafa verið dregnir frá þeir sem ekki verða komnir með kosningarétt 10. maí, þeir sem eru búsettir erlendis, eru látnir eða veikir og geta ekki svarað. Nærri 20% úrtaksins neituðu að svara og ekki náðist í tæp 12%.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert