Femínistafélagið hefur áhyggjur af fréttamati Stöðvar 2 eftir uppsögn

Femínistafélag Íslands lýsir undrun sinni á því að eingöngu konum skuli vera sagt upp störfum á fréttastofu Stöðvar 2. Hefur félagið áhyggjur af því hvaða áhrif uppsagnirnar munu hafa á fréttamat þegar konum sem vinna við fréttaflutning fækkar.

Í ályktun sem Femínistafélag Íslands hefur sent frá sér vegna uppsagna fréttakvenna hjá Stöð 2 segir að það sé staðreynd að á samdráttartímum virðast konur frekar verða fyrir uppsögnum en karlar. Nýjustu tölur um atvinnuleysi sýni að atvinnuleysi kvenna hafi aukist á meðan dregið hefur úr atvinnuleysi karla. Það sé áhyggjuefni þegar kynjablandaður vinnustaður sem neyðist til að fækka fólki segir eingöngu upp konum.

„Í jafnréttisbaráttunni hefur oft verið bent á að vinnumarkaðurinn metur kynin út frá mismunandi forsendum, bæði er fyrirvinnuhlutverkið oftar tengt körlum og framlag karla er álitið verðmætara en framlag kvenna. Femínistafélag Íslands varpar þeirri spurningu fram hvort þessi viðhorf endurspeglist í því að uppsagnir á fréttastofu Stöðvar 2 bitna eingöngu á konum. Það undirstrikar mikilvægi þess að vinnuveitendur séu meðvitaðir um birtingarmyndir kynjamisréttis og hvernig þjóðfélagsmótun hefur áhrif á ákvarðanatöku.

Mikilvægt er að fjölmiðlar endurspegli veruleika beggja kynja og því er einungis hægt að ná fram með jöfnu kynjahlutfalli í fjölmiðlum. Kannanir frá 1999 og 2000 leiddu í ljós að af öllu töluðu máli í sjónvarpi er framlag karla 85% á meðan framlag kvenna er eingöngu 15%.

Að lokum vill Femínistafélag Íslands hvetja vinnuveitendur til að hafa jafnréttissjónarmið í huga við slíkar ákvarðanatökur í framtíðinni," segir í ályktun félagsins vegna uppsagnanna á Stöð 2.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert