Eldislax getur útrýmt náttúrulegum stofnum

Sleppi eldislax ítrekað úr kvíum getur hann hæglega útrýmt villtum laxastofnum í Norður-Atlantshafi. Er þetta niðurstaða umfangsmikillar rannsóknar vísindamanna í Skotlandi, Írlandi og Norður-Írlandi en hún hefur staðið yfir í 10 ár.

Tilraunir með blandaðan lax, seiði undan villtum laxi og eldislaxi, sýndu, að lífslíkur þeirra eru fremur litlar en 70% þeirra drápust á fyrstu vikunum eftir að þau klöktust út. Eldislaxinn átti líka erfiðara með að komast af úti í náttúrunni en sá villti og hann er miklu ólíklegri en hinn til að ganga upp í ár til að hrygna. Eldislaxinn vex hins vegar miklu hraðar en sá villti og þeir, sem ganga upp í árnar, bægja burt hinum villtu frændum sínum. Sagði frá rannsókninni á fréttavef BBC, breska ríkisútvarpsins.

Vísindamennirnir, sem fylgdust með tveimur kynslóðum laxa, segja, að mjög mikil afföll séu í blandaða seiðahópnum og þess vegna minnki nýliðunin í stofninum ár frá ári. Haldi eldislaxinn áfram að sleppa úr kvíunum, muni herða á þessari þróun þar til náttúrulegir laxastofnar verði útdauðir.

Náttúruúrvalið að engu gert

Einn vísindamannanna, dr. Paulo Prodohl, sagði, að villtur lax væri árangur þúsunda ára þróunar, sem hefði "fínstillt" arfbera hans og gert honum kleift að komast af í náttúrunni. Genablöndun við eldislax myndi gera þetta náttúruúrval að engu.

Talið er, að tvær milljónir eldislaxa sleppi úr kvíum við Norður-Atlantshaf á hverju ári. Það er helmingurinn af áætluðum fjölda villtra laxa á þeim slóðum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert