Löng leið úr búrku í bikíni fyrir ungfrú Afganistan

Ungfrú Afganistan, Vida Samadzai, t.h., er fyrsti Afganinn í þrjá …
Ungfrú Afganistan, Vida Samadzai, t.h., er fyrsti Afganinn í þrjá áratugi sem tekur þátt í fegurðarsamkeppni. Hún brosti þegar hún vann í flokknum „fegurð fyrir málstað“ í keppninni Ungfrú jörð 2003 í Manila. AP

Habiba Surabi, sem fer með málefni kvenna í stjórn Hamid Karzai í Afganistan, fordæmdi ungfrú Afganistan í dag en Vida Samadzai er fyrsta afganska konan til að birtast opinberlega á bikíni eftir að valdatíma harðlínu- og strangtrúarmanna lauk í Afganistan.

„Að birtast nakin frammi fyrir ljósmyndurum og sjónvarpsvélum snýst ekki um kvenfrelsi, að mínu mati, heldur um að skemmta körlum," sagði ráðherrann um þátttöku Samadzai í keppninni „Ungfrú Jörð“ sem nú stendur yfir á Filippseyjum með þátttöku 60 kvenna víðs vegar að úr heiminum.

Í augum Vida Samadzai hefur leiðin úr búrku - sem hylur líkama konu með öllu - í rauðleitt bikíni á sundlaugarbakka lúxushótels í Manila verið nokkuð löng.

Er hún fyrsti fulltrúi Afganistans í alþjóðlegri fegurðarsamkeppni í um þrjá áratugi. Hún er 25 ára og fæddist og ólst upp í Afganistan en flýði upplausn, borgarastríð og vaxandi áhrif trúarsamtaka talibana til Bandaríkjanna árið 1996, er hún var 18 ára.

„Mig langar að leiða fólki það fyrir sjónir að afganskar konur eru hæfileikaríkar, gáfaðar og fagrar," sagði Vida við Reuters-fréttastofuna meðan ljósmyndarar tóku myndir af henni á laugarbakkanum. „Við getum látið til okkar taka," bætti hún við.

Talibanar bönnuðu konum að láta sjá sig á almannafæri í Afganistan nema íklæddar búrku. Slík iðja var reyndar algeng í landinu áður en talibanar komst til valda seint á síðasta áratug. Og talsvert er um að afganskar konur klæðist kuflinum enn þótt talibanar hafi verið hraktir frá völdum og hófsamari öfl tekið við.

Aðeins einu sinni áður hefur ungfrú Afganistan verið útnefnd en það sæmdarheiti féll í skaut stúlku að nafni Zohra Daoud sem tók þátt í keppninni Ungfrú heimur árið 1972.

Burtséð frá því hvort hún skarti kórónu sigurvegarans að keppninni á Filippseyjum lokinni eður ei hyggst Vida Samadzai fara með kvenfrelsisboðskap sinn til Afganistans síðar á þessu ári, en hún vonast til að geta aflað fjár til að reisa þar kvennaskóla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert