Hornsteinn lagður að Náttúrufræðahúsi HÍ

Páll Skúlason rektur HÍ leggur hornstein við Náttúrufræðahúsið.
Páll Skúlason rektur HÍ leggur hornstein við Náttúrufræðahúsið. mbl.is/Árni Sæberg

Páll Skúlason rektor Háskóla Íslands lagði hornstein að Náttúrufræðahúsi HÍ í Vatnsmýrinni í gær. Viðstaddir voru tilvonandi íbúar hússins og kennarar ásamt öðru háskólafólki. Við sama tækifæri var greint frá fyrirhugaðri samkeppni um nafn á húsið.

Náttúrufræðahúsið mun breyta starfsaðstæðum í jarð- og lífvísindum á Íslandi. Í húsinu verða líffræðiskor og jarð- og landfræðiskor raunvísindadeildar sem og jarðvísindahluti Raunvísindastofnunar (jarðeðlisfræðistofa og jarð-og jarðvísindafræðistofa), auk Norrænu eldfjallastöðvarinnar. Þessi starfsemi fer nú fram á sjö mismunandi stöðum á háskólasvæðinu og víðsvegar um Reykjavík. Allir íbúar hússins, samtals 120 manns, munu flytja inn í húsið á næstu vikum. Húsið er um 8.000 fermetrar að stærð.

Kennsla hefst í húsinu 7. janúar 2004. Nemendur í húsinu verða 5-600 talsins, þar af 70-80 framhaldsnemar. Auk þess sem nemendur úr öðrum deildum munu njóta þar kennslu. Í húsinu verður kaffistofa með útsýni yfir friðlandið og Tjörnina, en rekstur kaffistofunnar verður í höndum Félagsstofnunar stúdenta líkt og í öðrum byggingum Háskóla Íslands. Einnig verður Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn með útibú í húsinu líkt og verið hefur í núverandi húsnæði jarðfræði- og líffræðigreina.

Formleg opinber vígsla hússins verður 27. febrúar 2004.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert