Bjargaði lífi kattar í klandri

jens Sigurðsson á Hvolsvelli lenti í óvenjulegri lífsreynslu nótt eina í vikunni. Hann vaknaði upp við vondan draum milli kl. 3 og 4 um nóttina. "Ég hrökk upp við mikinn hávaða sem barst úr þvottahúsinu og hélt að þar væri innbrotsþjófur á ferð. Frúin er nú venjulega vön að redda svona málum en þar sem hún var ekki heima þurfti ég að manna mig upp í að ráðast til inngöngu í þvottahúsið, því ekki minnkaði hávaðinn og mér fannst eins og barið væri bæði í þvottavélina og á hurðina. Innbrotsþjófur hefði sennilega ekki haft svona hátt," sagði Jens, sem bjóst engu að síður við því versta. Hann sagðist ekki hafa vitað við hverju var að búast.

Við blasti óvenjuleg sjón

"Þegar inn í þvottahúsið kom blasti við mér óvenjuleg sjón, þar var á ferðinni köttur sem hafði fest hausinn í niðursuðudós sem í var dálítill afgangur af kattamat. Kötturinn braust um með dósina fasta á hausnum og nú voru góð ráð dýr. Ég lokaði þvottahúsinu í skyndi og dreif mig í fötin. Fór síðan aftur inn í þvottahús og náði taki á dósinni og hugðist hrista köttinn úr henni, en ekki vildi hann losna. Það var ekki fyrr en verulega var farið að draga af honum að ég náði honum úr dósinni og varð hann þá frelsinu feginn og stökk út um gluggann. Ég var um tíma farinn að hugsa um að ná í dósaopnarann og gera gat á dósina því kötturinn virtist vera að kafna í dósinni og ég orðinn útklóraður."

Jens var nokkuð skelkaður eftir þessa lífsreynslu og sagðist ekki hafa náð að sofna aftur eftir ævintýri næturinnar. "Ég fór ósofinn í vinnuna en ekki veit ég hvort heimiliskötturinn, Hannibal, freistaði næturgestsins eða afgangurinn af kattarmatnum," og bætti við kíminn á svip að af þessari reynslu hefði hann lært að ekki væri rétt að hleypa frúnni að heiman nema að vel athuguðu máli.

Hvolsvelli. Morgunblaðið.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert