Fékk 2 milljónir úr nýstofnuðum vísindasjóði LSH

Ingileif Jónsdóttir.
Ingileif Jónsdóttir.

Ingileif Jónsdóttir, dósent við ónæmisfræðideild Landspítala - háskólasjúkrahúss, fékk í dag verðlaun fyrir vísindastörf sín úr nýstofnuðum sjóði. Voru verðlaunin afhent á ársfundi LSH í Hringsal og nema 2 milljónum króna. Sjóðinn stofnuðu tveir læknar, þeir Árni Kristinsson og Þórður Harðarson, sem hafa lengi starfað við Landspítala - háskólasjúkrahús og næstum jafn lengi gegnt kennarastöðum við læknadeild Háskóla Íslands.

Sjóðnum er einkum ætlað að veita verðlaun fyrir frábæran árangur á sviði lækna- og heilbrigðisvísinda. Verðlaunaveiting verður ýmist árlega eða annað hvort ár, eftir því sem tilefni gefast. Auglýst verður eftir tilnefningum á hverju ári.

Að þessu sinni ákváðu stofnendur sjálfir hver hlyti verðlaunin en nutu ráðgjafar ýmissa, einkum Helgu Ögmundsdóttur prófessors við læknadeild. Við val á verðlaunahafa var auk vísindaverðleika áskilið að vísindamaðurinn væri enn fullvirkur í vísindastarfi og hefði verið ötull kennari nemenda á ýmsum stigum rannsóknarnáms.

Ingileif er fyrirlesari á alþjóðlegri ráðstefnu í Finnlandi og gat því ekki veitt verðlaununum viðtöku. Eiginmaður Ingileifar, Birgir Björn Sigurjónsson, tók við verðlaununum fyrir hennar hönd.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert