Getum þróað nýjar leiðir við meðferð hins formlega valds

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, flutti erindi við upphaf norrænnar sveitarstjórnarráðstefnu í Reykjavík í gær, sem bar yfirskriftina "Að hugsa á heimsvísu og skapa á heimaslóð". Ólafur Ragnar gerði að umræðuefni þau miklu tækifæri sem sú kynslóð sem nú væri að vaxa úr grasi á Norðurlöndum hefði ólíkt eldri kynslóðum. Hún gæti valið hvar hún vildi búa og starfa án mikillar fyrirhafnar.

Hann sagði að sveitarfélög, borgir eða þjóðríki gætu ekki gengið að því vísu að íbúarnir kysu að búa þar áfram.

Forsetinn sagði að viðbrögð margra við þessari breyttu mynd hefðu gjarnan verið neikvæð og sumir hefðu lagt áherslu á að draga varnarlínur til að bregðast við þróuninni. Reynslan sýndi hins vegar að í þessum breytingum fælust einnig tækifæri fyrir byggðarlögin og árangurinn hefði víða verið glæsilegur.

Forsetinn vék að samfélagshugsuninni sem fylgt hefði norrænum mönnum. "Norræn samfélög eru af mörgum talin fyrirmynd, vegvísir um framtíðina, sönnun þess hvernig hægt er að tryggja velferð, menntun og heilsugæslu og njóta um leið hagvaxtar og efnahagslegra framfara, nýta kosti markaðarins og búa almenningi um leið öryggi og hagsæld, hafa mannréttindi í hávegum og þróa lýðræði sem sé opið, gegnsætt og víðtækt, samfélög þar sem upplýsingatæknin er slík almenningseign að við getum þróað nýjar leiðir við ákvarðanir og almenna þátttöku í meðferð hins formlega valds, gert hina nýju veröld að framfaraskeiði lýðræðis og mannréttinda," sagði Ólafur Ragnar.

Skara fram úr í harðnandi samkeppni

Hann sagði að flestir fræðimenn væru sammála um að á hinni nýju öld væri lýðræðisleg hugsun, lifandi og margræð menning, áhersla á sköpunarkraft og frumleika mikilvægar forsendur þess að ná árangri á heimsmarkaði og þar með að skara fram úr í harðnandi samkeppni þar sem ögrunin gæti komið úr hvaða átt sem væri.

Forsetinn ræddi einnig um árangur íslenskra fyrirtækja á heimsmarkaði og nefndi Kaupthing Bank, Baug Group, Actavis, Össur, Icelandair, Marel, GoPro og Flögu í því sambandi. Hann benti t.d. á að nú væru tekjur Íslendinga af lyfjaútflutningi til Þýskalands meiri en af útflutningi á karfa til Þýskalands sem lengi hefði verið helsti markaður okkar fyrir karfa.

Ráðstefnuna, sem lýkur á morgun, sækja um 350 manns, fyrst og fremst kjörnir fulltrúar í sveitar- og héraðastjórnum. Hún er haldin á vegum Sambands íslenskra sveitarfélaga í samstarfi við sveitarfélagasamböndin annars staðar á Norðurlöndunum. Formaður sambandsins, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, bauð gesti velkomna.

Yfirskrift ráðstefnunnar er staða norrænna sveitarfélaga og héraða í hnattvæddum heimi.

Astrid Thors, sem situr á Evrópuþinginu fyrir hönd Finnlands, fjallaði á ráðstefnunni um stöðu norrænna sveitarfélaga á vettvangi Evrópumála. Borgarstjóri Linköping í Svíþjóð, Eva Joelsson, ræddi um norræna áhrifaþætti á þróun sveitarfélaga og héraða næstu ár. Umfjöllun hennar var byggð á grundvelli mikillar framtíðarrannsóknar sem nýlega var gerð á vegum sænska sveitarfélagasambandsins.

Í vinnuhópum var fjallað um afmarkaða þætti, svo sem norræna velferðarsamfélagið, pólitíska stjórnun í framtíðinni og þróun í átt til netlýðræðis.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert