Ráðgerðu dönsk yfirvöld að myrða Jón Sigurðsson?

Í nýlegu tölublaði tímaritsins Sögu fjallar Svavar Jósefsson sagnfræðingur um rannsóknir danskra yfirvalda á sannleiksgildi þeirrar sögu að Danir hafi ráðgert að myrða Jón Sigurðsson í kjölfar þjóðfundarins árið 1851.

Í greininni, sem er unnin upp úr BA-ritgerð um efnið, rekur Svavar atburðarásina í kringum þjóðfundinn og nefnir að í forystugreinum íslenskra dagblaða á þeim tíma hafi mikið verið rætt um grimmd stiftamtmannsins og Trampe greifa og það hafi verið umtalað að dönsku hermennirnir hefðu fengið skipanir um að skjóta Jón Sigurðsson, Hannes Stephensen og Jón Guðmundsson ef til vandræða kæmi.

"Ef maður ætti að geta sér til um hvernig sagan hafi komist á kreik eftir að danskir hermenn voru sjáanlegir í miðborg Reykjavíkur og Íslendingar, sem voru bitrir vegna niðurstöðu þjóðfundarins, hafi verið að velta því fyrir sér hvers vegna þeir væru vopnaðir. Þetta er að því gefnu að hún sé ósönn, sem flest bendir til," segir Svavar.

Utanríkisráðuneytið hóf rannsókn

Hann segir að Bodil Begtrup, sem var sendiherra Dana hér á landi árin 1949-1956, hafi átt frumkvæði að því að danska utanríkisráðuneytið hæfi rannsókn á sannleiksgildi þessarar sögu í kjölfar hundrað ára afmælis þjóðfundarins.

"Begtrup hefur eflaust borist sagan til eyrna eftir að hún kom hingað. Hún tekur fram í bréfi sem hún skrifaði að prófessorar við Háskóla Íslands hafi sagt sér að það væri útbreidd söguskoðun hér á landi að Danir hafi ætlað að lífláta þremenningana," segir Svavar en sagan af líflátstilraununum birtist auk þess í leiðara Þjóðviljans í tilefni hundrað ára afmælis þjóðfundarins árið 1951.

Svavar segir að Begtrup hafi verið umhugað um ímynd Dana meðal Íslendinga auk þess sem dönsk stjórnvöld vildu bæta sambandið við Íslendinga. Begtrup óskaði eftir því að danska utanríkisráðuneytið léti rannsaka málið. Ráðuneytið féllst á það og fól ungum sagnfræðingi, Niels Petersen, að vinna verkefnið árið 1951. Í niðurstöðu sinni komst Petersen að því að hún væri væntanlega ósönn og sönnunarbyrðin væri Íslendinga.

Utanríkisráðuneytið leitaði álits danska menntamálaráðuneytisins vegna málsins. Í samskiptum þeirra kom meðal annars fram ákvörðun ráðuneytisins að niðurstöður rannsóknarinnar yrðu aðeins gerðar opinberar ef ráðuneytið teldi það hentugt.

Svavar segir að þótt Petersen hafi komist að þeirri niðurstöðu að enginn fótur væri fyrir sögunni hafi ráðuneytið engu að síður ákveðið að gera niðurstöðurnar ekki opinberar. Hann segir að sú ákvörðun hafi eflaust komið til vegna samskipta þjóðanna á þeim tíma.

"Það var kul í samskiptum þjóðanna á þessum tíma og ráðuneytið hefur eflaust ákveðið að halda rannsókninni leyndri til að forðast togstreitu," segir Svavar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert