Smíði í stöðvarhúshvelfingu að hefjast við Kárahnjúka

Byggingaframkvæmdir í stöðvarhúshvelfingu Kárahnjúkavirkjunar hefjast eftir helgina. Það er Fosskraft sem sér um þennan hluta verksins, en framkvæmdir á vegum fyrirtækisins hafa gengið mjög vel og eru talsvert langt á undan áætlun. Fyrirtækið er búið að bora um 75% af öllum jarðgöngum og mun klára borun í haust.

Hermann Sigurðsson, verkfræðingur hjá Fosskrafti, er ánægður með gang verksins. Hann tók einnig þátt í gerð Hvalfjarðarganga.

"Þetta hefur gengið vel eins og í Hvalfjarðargöngum. Vinnan er svipuð nema að því leyti að þar vorum við með sjóinn fyrir ofan okkur og höfðum eðlilega áhyggjur af honum. Hér er hins vegar um flóknari framkvæmd að ræða og miklu meira um mælingar," sagði Hermann, en göngin í Fljótsdal eru mörg og af ýmsum gerðum.

Núna í vikunni hefst vinna við steypta bita í lofti stöðvarhússhvelfingarinnar, en í honum kemur til með að hanga krani sem verður notaður við byggingu stöðvarhússins.

Fljótlega hefst einnig vinna við borun seinni fallganganna en vinnu við fyrri göngin lauk fyrir nokkrum vikum.

Almennt gengur vinna við Kárahnjúkavirkjun vel. Jarðgangavinnan er á undan áætlun, en vinna við sjálfa stífluna er hins vegar nokkrum vikum á eftir áætlun. Ástæðan er sú að botn gilsins reyndist gljúpur og þurfti að grafa 12 metrum lengra niður en áætlanir gerðu ráð fyrir. Bergið í botninum er einnig talsvert sprungið. Talsmenn Impregilo og Landsvirkjunar telja að allir möguleikar séu á að vinna upp þann tíma sem hafi tapast. Þeir eru bjartsýnir á að það takist.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert