Keppnisskap Íslendinga meira en flestra Evrópuþjóða

Íslendingar eru í hópi þeirra Evrópuþjóða sem hafa hvað mest keppnisskap, samkvæmt könnun sem Visa Europe lét nýlega gera í 8 ríkjum álfunnar. Könnunin var gerð í tilefni af Ólympíuleikunum í Aþenu og markmið hennar var að mæla keppnisskap þeirra þjóða sem hún náði til.

Hér á landi annaðist Gallup framkvæmd könnunarinnar en hún fólst í því að hringt var í tæplega 1.300 manna slembiúrtak úr þjóðskrá og spurningar lagðar fyrir viðmælendur. Fjöldi svarenda var 801 og svarhlutfallið því 62,2%.

Meðal annars var spurt um hvort og hvaða markmið viðmælendur settu sér í lífinu, hvort þeir væru vanir að ná þeim og hver viðbrögð þeirra væru þegar þeim mistækist það.

Í ljós kom að 78% svarenda hér á landi sögðust setja sér markmið og ná þeim iðulega eða alltaf. Þetta er mun hærra hlutfall en kom fram í öðrum löndum og er það einungis hærra í Grikklandi, þar sem það mældist 81%.

Á hinn bóginn var útkoman lökust í Portúgal þar sem aðeins 63% svarenda segjast iðulega eða alltaf ná markmiðum sínum. Í Bretlandi sögðust 23% aldrei setja sér markmið, sem er mun hærra hlutfall en kom fram í öðrum löndum.

Rúm 43% svarenda hér á landi segjast verða ákveðnari í að ná settu markmiði ef þeim mistekst í fyrstu tilraun og er það hlutfall með því hæsta sem mældist í könnuninni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert