Clinton: Ísland hefur í mínum huga verið fyrirmynd

Sigurður Líndal fræðir Bill Clinton um sögu Þingvalla á Lögbergi …
Sigurður Líndal fræðir Bill Clinton um sögu Þingvalla á Lögbergi nú í morgun. mbl.is/Arna

Bill Clinton, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, sagði eftir að hafa skoðað Þingvelli í dag, að hann þekkti til þess staðar og sögu alþingis Íslendinga enda væri hann lögfræðingur að mennt og hefði kennt í lagaskóla í Bandaríkjunum. Sagði hann að í sínum huga hefði Ísland og saga þess verið einskonar fyrirmynd að mjög mikilvægum þætti hjá frjálsum ríkjum, þeim að setja leikreglur fyrir þjóðfélagið en koma jafnframt í veg fyrir að vald sé misnotað.

Clinton sagði að hugmyndin á bak við bandarísku stjórnarskrána, hefði verið að draga úr misnotkun valds. Fram hefði komið í fyrirlestri Sigurðar Líndals, fyrrum lagaprófessors á Lögbergi í dag, að alþingi á Þingvöllum hefði í raun verið komið á fót til að setja nægilega skýrar leikreglur fyrir þjóðina en ekki til að misnota vald. „Í mínum huga hefur Ísland og öll saga þess alltaf verið eins konar fyrirmynd mjög mikilvægs þáttar frjálsra ríkja. Ég hef lengst af starfað í opinbera stjórnkerfinu og ríkisstjórn þarf að hafa nægilegt vald til að gera það sem þarf í þágu fólksins en um leið verður að koma í veg fyrir misnotkun valds. Og saga upphafs alþingis Íslendinga ber með sér, að þar var verið að berjast gegn slíku. Þess vegna er ég afar ánægður með að vera hér og hér er mjög fallegt. Og að koma á mörk meginlandsflekanna og sjá ummerki þess í landslaginu er stórfenglegt," sagði Clinton.

Clinton sagðist hafa komið áður til Íslands en aðeins í millilendingum. Hann hefði ekki skoðað sig neitt um og aldrei haft tækifæri til að koma á Þingvöll. Í fyrsta skiptið hefði hann komið til landsins fyrir 35 árum þegar hann var ungur námsmaður og fór með Loftleiðum milli Bandaríkjanna og Evrópu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert