Vilja gera úttekt á notkun stofnfruma til lækninga

Nokkrir þingmen Samfylkingarinnar hafa lagt fram þingsályktunartillögu á Alþingi um að stofnuð verði nefnd sem geri úttekt á kostum þess og göllum út frá læknisfræðilegu, siðfræðilegu og trúarlegu sjónarmiði að heimila nýtingu stofnfrumna úr fósturvísum manna til rannsókna og lækninga á alvarlegum sjúkdómum.

Í tillögunni er gert ráð fyrir að í nefndinni sitji fulltrúi landlæknisembættisins, Læknafélags Íslands, Siðfræðistofnunar, Prestafélags Íslands, vísindasiðanefndar, læknadeildar Háskóla Íslands, Landspítala – háskólasjúkrahúss, Krabbameinsfélagsins og heilbrigðisráðuneytisins. Fulltrúi heilbrigðisráðuneytisins verði formaður nefndarinnar. Nefndin ljúki störfum eigi síðar en 1. janúar 2006.

Fyrsti flutningsmaður tillögunnar er Jóhanna Sigurðardóttir. Fram kemur í greinargerð að víða um heim fari nú fram umræða um notkun stofnfrumna úr fósturvísum manna í læknisfræðilegum tilgangi og fari umræðan fram á vettvangi siðfræði, vísinda, trúar og stjórnmála. Um sé að ræða unga vísindagrein, en rannsóknir hófust á níunda áratugnum. Þegar hafi náðst mikill árangur í rannsóknum á eiginleikum stofnfrumna í því markmiði að nýta þær í náinni framtíð til lækninga á alvarlegum sjúkdómum.

Þá er bent á að hér á landi sé ekki heimilt samkvæmt lögum að vinna með stofnfrumur úr fósturvísum manna. Það sé megintilgangur og markmið með flutningi þingsályktunartillögunnar, að Alþingi móti stefnu um hvort heimila eigi með lögum að nota stofnfrumur úr fósturvísum manna til rannsókna og lækninga alvarlegra sjúkdóma. Mikilvægt sé að sú ákvörðun verði tekin á grundvelli ítarlegrar og upplýstrar umræðu í þjóðfélaginu, á Alþingi og innan heilbrigðis- og vísindasamfélagsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert