Hundur rak innbrotsþjóf á flótta

Lögreglan í Reykjavík fékk á laugardagskvöld tilkynningu um að mikil læti hafi heyrst frá hundi í húsi einu í Breiðholti en þar var enginn heima. Þegar að var gáð sást að reynt hafði verið að spenna upp glugga í húsinu og var stormjárn í glugga brotið en ekki hafði verið farið inn.

Þetta kemur m.a. fram í yfirliti lögreglunnar í Reykjavík um helstu verkefni helgarinnar. Frekar erilsamt var hjá lögreglunni, m.a. var tilkynnt um 15 innbrot.

61 ökumaður var stöðvaður vegna hraðaksturs um helgina, höfð voru afskipti af 8 ökumönnum vegna gruns um ölvun við akstur og einum vegna gruns um akstur undir áhrifum lyfja.

Þá hafði lögreglan afskipti af 9 ökumönnum sem notuðu farsíma án handfrjáls búnaðar.

Tilkynnt var um 52 umferðaróhöpp með eignatjóni um s.l. helgi. Á Vesturlandsvegi við Hvalfjarðargöng varð á föstudag árekstur rétt við gangnamunnann að sunnanverðu. Ökumaður bifreiðar, sem ekið var um Hvalfjarðargöng áleiðis til Reykjavíkur, blindaðist af sólinni. Hann missti bifreiðina fyrst út í hægri kant, síðan áleiðis út í vinstri kant og þaðan aftur út í hægri kant. Bifreiðin snérist að lokum nánast í U-beygju og fór yfir á öfugan vegarhelming og í veg fyrir aðra bifreið sem ekið var til norðurs. Harður árekstur varð með bifreiðunum og kenndu ökumenn og farþegi til eymsla en ætluðu að sjá til með læknismeðferð.

Á föstudag varð einnig árekstur á Vesturlandsvegi við Blásteina. Ökumaður og þrír farþegar voru fluttir á slysadeild með sjúkrabifreið en ekki var um alvarleg meiðsli að ræða.

Á föstudagskvöld var tilkynnt um bifreið sem ekið hafði verið á þrjár bifreiðar við Laugaveg og næstum á þrjá vegfarendur, sem voru að koma út af veitingastað, en síðan ekið af vettvangi. Bifreiðinni hafði verið ekið austur Hverfisgötu og síðan Laugaveg. Austan við Rauðarárstíg er þrenging á götunni en þar verða tvær akreinar að einni. Ökumaðurinn hefur greinilega ekki náð beygjunni en bifreiðinni hafði verið ekið á vinstri akrein og skildi hún eftir sig 27 metra hemlaför. Bifreiðin var síðan stöðvuð af lögreglunni á Hellu og þá kom í ljós að ökumaður var sviptur ökuréttindum.

Lögreglan hafði afskipti af ökumanni sem lagði í stæði merkt fyrir fatlaða. Ökumaður neitaði að yfirgefa stæðið þegar lögreglan bað hann auk þess sem hann neitaði að framvísa ökuskírteini og var ósáttur við afskipti lögreglu. Ökumanni var svo leyft að fara eftir að hafa framvísað ökuskírteini en skýrsla var rituð um málið.

Vildi prófa nýju dýru hljómflutningstækin
Lögreglu bárust 19 tilkynningar um hávaða innandyra og þá aðallega vegna tónlistarhávaða. Í einu tilfelli sagðist húsráðandi vera að prófa nýju dýru hljómflutningstækin sín og lofaði að lækka.

Verslunarstjóri ÁTVR hafði samband við lögreglu á föstudag og óskaði aðstoðar vegna 3 drengja er höfðu reynt að kaupa áfengi en ekki fengið afgreiðslu. Voru þeir allir 18 ára og var rætt við þá á „föðurlegum nótum”

Á laugardagsmorgun var tilkynnt um þjófnað á bensínstöð við Skúlagötu en þar hafði verið stolið bensíni fyrir 1501 kr. Stuttu seinna var svo óskað eftir aðstoð í verslun þar sem menn voru til vandræða. Er lögreglan kom á staðinn voru þetta sömu menn og stálu bensíni en í versluninni höfðu þeir tekið verkfæri fyrir 22 þúsund krónur.

Tilkynnt var um rúðubrot í miðbænum en maður hafði lent í slagsmálum og í miðjum klíðum sló hann rúðuna en ekki mótaðilann.

Lögreglan þurfti að hafa afskipti af „greni” í austurborginni en þar voru m.a. unglingar. Húsráðandi virðist hafa flutt burt en þarna hafði safnast saman ungt óreglufólk. Lögreglan vísaði fólkinu út.

Brotist var inn í bifreið og þaðan stolið verkfæratösku sem í voru verkfæri að verðmæti um 100 þúsund krónur. Einnig hafði verið reynt að stela geislaspilara en ekki tekist og voru skemmdir á mælaborði.

Brotist var inn í geymsluskúr með því að brjóta rúðu. Þar farið inn í skáp, bíllyklar teknir og bifreið stolið. Bifreiðin fannst skömmu seinna óskemmd.

Einnig var brotist inn í fyrirtæki í Borgartúni og gamalli fartölvu stolið.

Á sunnudaginn var tilkynnt um krakka á reiðhjólum úti á ís á Rauðvatni sem getur verið stórhættulegt þar sem ísinn er ótraustur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert