Steinunn Valdís Óskarsdóttir nýr borgarstjóri

Stefán Jón Hafstein kynnir samþykkt borgarstjórnarflokks R-listans.
Stefán Jón Hafstein kynnir samþykkt borgarstjórnarflokks R-listans. mbl.is/Kristinn

Tilkynnt var á blaðamannafundi, sem nú stendur yfir í Tjarnarsalnum í Ráðhúsinu, að borgarstjórnarflokkur Reykjavíkurlistans hafi samþykkt samhljóða fyrr í kvöld að Steinunn Valdís Óskarsdóttir, borgarfulltrúi, taki við embætti borgarstjóra þegar Þórólfur Árnason lætur af því embætti 30. nóvember.

Anna Kristjánsdóttir, borgarfulltrúi, sagði á blaðamannafundinum, að á fundi borgarstjórnarflokks R-listans fyrr í kvöld hefði verið samþykkt einróma tillaga um að Steinunn Valdís verði nýr borgarstjóri.

Stefán Jón Hafstein, borgarfulltrúi, sagði að borgarstjórnarflokkurinn hefði fjallað um þessi mál eftir að Þórólfur Árnason óskaði í gær eftir að láta af störfum sem borgarstjóri. „Þetta mál hafði nokkurn aðdraganda og við höfum haft nokkuð tóm til að velta fyrir okkur hinum ýmsu góðu kostum, sem fyrir liggja, fyrir okkur, en það var tillaga borgarfulltrúanna í dag, að Reykjavíkurlistakonan fram í húð og hár, Steinunn Valdís Óskarsdóttir, verði borgarstjóri Reykjavíkur út kjörtímabilið. Reykjavíkurlistinn stendur heilshugar á bakvið hana og það sem meira er, Reykjavíkurlistinn hefur ákveðið að vinna áfram, flokkarnir og þeir sem styðja listann standa að þessu borgarstjóraefni og við höfum ákveðið að halda áfram að stýra borginni styrkri hendi," sagði Stefán.

Steinunn sjálf sat ekki blaðamannafundinn en Stefán Jón boðaði að hún kæmi fram í fréttaskýringarþáttum sjónvarpsstöðvanna síðar í kvöld.

Steinunn Valdís Óskarsdóttir.
Steinunn Valdís Óskarsdóttir.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert