Ný alþjóðleg rannsókn á stærðfræðiárangri: Íslenskar stúlkur drengjum fremri

Stúlkur í 10. bekk eru áberandi betri í stærðfræði en drengir og er Ísland eina landið í OECD þar sem svo mikill munur mælist á stærðfræðikunnáttu kynjanna, að því er fram kemur í umfangsmikilli alþjóðlegri rannsókn sem kynnt var í gær.

Rannsóknin var gerð árið 2003 meðal 15 ára nemenda í öllum 30 löndunum sem aðild eiga að Efnahagssamvinnu- og þróunarstofnuninni (OECD) auk 11 landa sem standa utan stofnunarinnar. Þegar árangur nemenda í löndunum er borinn saman kemur í ljós að íslensk ungmenni eru í 13.-17. sæti miðað við hinar þjóðirnar þegar stærðfræðikunnátta er mæld, en í 10.-14. sæti þegar einungis OECD-þjóðirnar 30 eru hafðar til viðmiðunar. Þegar einungis stúlkur eru mældar reyndust íslenskar stúlkur vera í 8. sæti samanborið við stúlkur í öðrum löndum, en drengir reyndust vera í 20. sæti miðað við drengi í hinum löndunum í rannsókninni.

Júlíus K. Björnsson, forstöðumaður Námsmatsstofnunar, kynnti fjölmiðlum niðurstöður rannsóknarinnar í gær og sagði hann að þessi mikli munur á kynjunum staðfesti það sem menntamálayfirvöld hefði þegar grunað út frá niðurstöðum samræmdra prófa. Hann segir að engin skýring hafi enn fundist á þessum mun á kynjunum en unnið sé í því að rannsaka það.

Strákar öruggari með sig

Það vekur sérstaka athygli að þrátt fyrir að stúlkur í 10. bekk séu mun betri í stærðfræði en drengir þá eru drengirnir mun öruggari með sig þegar þeir eru spurðir um stærðfræðikunnáttu, og hafa mun frekar þá mynd af sjálfum sér að þeir séu betri í stærðfræði en stelpurnar. "Strákarnir hafa miklu betra sjálfsálit og sjálfsöryggi í stærðfræði en stelpur, sumar konur túlka þetta sem klassískan karla-gorgeir en ég veit ekki alveg hvernig á að túlka það. Það er allavega alveg ljóst að hér er ákveðin þversögn á ferðinni," segir Júlíus.

Rannsóknin lagði mesta áherslu á að kanna stærðfræðikunnáttu 15 ára nemenda en kannaði einnig lestur og náttúrufræðikunnáttu. Íslensk ungmenni eru yfirleitt rétt um meðaltalið í þessum þremur greinum./10

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert