Sjöfn Þór valin sóknarprestur í Reykhólaprestakalli

Valnefnd Reykhólaprestakalls ákvað á valnefndarfundi í gær að leggja til að Sjöfn Þór guðfræðingur verði skipaður sóknarprestur í prestakallinu frá 1. ágúst.

Sjöfn Þór útskrifaðist sem guðfræðingur frá Háskóla Íslands árið 2003. Hún hefur starfað að æskulýðsmálum Þjóðkirkjunnar um árabil og verið þjónustufulltrúi Kjalarnesprófastsdæmis frá 2003. Hún er formaður Æskulýðssambands kirkjunnar í Reykjavíkurprófastsdæmum og á einnig sæti í stjórn Ecumenical Youth Council of Europe, samkirkjulegum samtökum ungs fólks í Evrópu.

Í valnefndinni sitja fimm fulltrúar úr prestakallinu auk vígslubiskups í Skálholti. Umsóknarfrestur rann út þann 16. júní síðastliðinn og voru átta umsækjendur um embættið. Kirkjumálaráðherra skipar í embættið til fimm ára samkvæmt niðurstöðu valnefndar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert