Stuðningsnefnd Arons Pálma berst liðsauki

Lögfræðingur af íslenskum ættum í San Diego, Knut Sveinbjörn Johnson, hefur gengið til liðs við RJF-hópinn, stuðningshóp Arons Pálma Ágústssonar, íslensks drengs sem sætt hefur refsivist í Bandaríkjunum í meira en 8 ár, eða frá 13 ára aldri.

Að því er segir í tilkynningu frá hópnum hyggst lögfræðingurinn þrýsta á yfirvöld í Texas um að Aron Pálmi verði tafarlaust leystur úr haldi og heimilað að hverfa á ný til heimalands síns, Íslands. „Knútur er nafntogaður lögfræðingur þar vestra og nafn hans er að finna á lista yfir bestu lögfræðinga í Ameríku 2005-6,“ segir í tilkynningunni. Þar kemur fram að faðir Knúts, Paul Sveinbjörn Johnson, lögfræðingur og fyrrv. ræðismaður Íslands í Chicago, sem dvalið hefur hér á landi um skeið, hafi haft samband við Einar S. Einarsson og boðið fram aðstoð þeirra feðga.

„Stefnt er að því að 3ja manna sendinefnd haldi utan til Bandaríkjanna eftir 2-3 vikur ef dráttur verður á svörum frá Rick Perry, ríkisstjóra í Texas, við nýlegu erindi RJF-hópsins og bænarbréfi biskups Íslands um að Aron Pálmi fái að fara frjáls ferða sinna til Íslands, en til vara að hann afpláni þá hér heima þau 2 ár sem eftir standa af 10 ára dómi sem hann hlaut árið 1997 fyrir barnslega yfirsjón gagnvart leikfélaga sínum,“ segir ennfremur í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert