Þögul mótmælastaða við Kárahnjúka

Þögul mótmælastaða var við Kárahnjúka í fyrradag þegar mótmælendur úr tjaldbúðunum og göngugarpar sem hafa ferðast um svæðið með ferðahópnum Augnabliki héldust í hendur, horfðu á virkjunarframkvæmdirnar og þögðu í tíu mínútur. Á milli fimmtíu og sjötíu manns tóku þátt og mynduðu því langa línu við útsýnispall Landsvirkjunar. Ósk Vilhjálmsdóttir, leiðsögumaður Augnabliks, segir að aldrei hafi fleiri tekið þátt í mótmælastöðu við Kárahnjúka en hún hefur farið með fjölda hópa um svæðið.

Ósk lagði af stað í nýja ferð í morgun ásamt samstarfskonu sinni Ástu Arnardóttur og þriðja gönguhópi sumarsins. Aðspurð um hvernig fólki lítist á svæðið segir Ósk að flestir hafi ekki gert sér grein fyrir hversu stórt svæði fer undir vatn. „Það var einn maður sem lýsti þessu svolítið vel. Honum leið sérkennilega alla ferðina en átti erfitt með að finna orð yfir tilfinninguna. Þar til í lokin að hann sagði að honum fyndist hann vera á vettvangi glæps sem ætti eftir að fremja.“

Þótt flestir ferðamenn sem fara um svæðið með Ósk og Ástu séu á móti virkjanaframkvæmdum gildir það ekki um alla. „Það var einn virkjanasinni með okkur um daginn og í lok ferðarinnar sagðist hann ekki hafa haldið að þetta væru svona miklar fórnir sem þyrfti að færa,“ segir Ósk en bætir við að hann hafi engu að síður verið á því að virkjunin skyldi rísa.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert