Mótmælendur handteknir við Kárahnjúka í nótt

Skilti á Kárahnjúkum sem málað hefur verið á.
Skilti á Kárahnjúkum sem málað hefur verið á. mbl.is

Hópur mótmælenda fór inn á vinnusvæði við Kárahnjúka í nótt. Hópurinn komst framhjá hliðvörðum á vestanverðu svæðinu og hlekkjuðu mótmælendurnir sig við tæki sem þar stóðu. Lögreglan var kölluð á staðinn í kjölfarið og handtók hún nokkra aðila sem létu ófriðlega. Sigurður Arnalds, kynningarstjóri Kárahnjúkavirkjunar, segir mögulegt að kærur verði lagðar fram vegna atviksins. „Ef tæki hafa skemmst þá þarf að skoða það hvort Impregilo kærir þetta,“ segir Sigurður. „Við treystum á að þetta verði til þess að lögreglan efli enn frekar viðbúnað á svæðinu.“

Sigurður segir að mótmælendurnir hafi flestir verið útlendingar. „Það var einhver Englendingur sem var hershöfðinginn yfir þessari aðgerð, og þeir sem höfðu sig í frammi voru að mestu leyti útlendingar eftir því sem ég best veit. Öll slagorð sem máluð hafa verið á byggingar og skilti hjá okkur eru til dæmis á ensku,“ segir Sigurður.

Ekki hefur náðst í fulltrúa sýslumannsins á Egilsstöðum vegna málsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert