Iceland Express hyggst stórefla starfsemi sína næsta sumar

Ein flugvéla Iceland Express.
Ein flugvéla Iceland Express. mbl.is

Iceland Express, íslenska lággjaldafélagið í eigu þeirra Pálma Haraldssonar og Jóhannesar Kristinssonar, mun frá maí 2006 fljúga til níu áfangastaða í Evrópu, í stað þeirra þriggja sem félagið flýgur nú til.

Samkvæmt upplýsingum Birgis Jónssonar, framkvæmdastjóra Iceland Express, er um að ræða áfangastaðina Bergen í Noregi, Stokkhólm og Gautaborg í Svíþjóð og Hamborg, Berlín og Friedrichshafen í Þýskalandi.

Þeir áfangastaðir, sem félagið flýgur nú til, eru Kaupmannahöfn í Danmörku, London í Englandi og Frankfurt-Hahn í Þýskalandi.

Birgir segir að til að byrja með verði flogið tvisvar til fjórum sinnum í viku á nýju áfangastaðina. Sala á ferðum til þessara áfangastaða hefjist í október og verði ákveðinn sætafjöldi boðinn á 2.000 kr. á sérstöku „sprengitilboði“. Hvað varðar fargjöld til nýju áfangastaðanna segir Birgir að sams konar fargjöld verði í boði og til þeirra staða sem félagið flýgur nú til, þ.e. að ákveðinn sætafjöldi verði seldur á 7.995 krónur og síðan ráði eftirspurn því hversu hátt hlutfall sé til sölu hverju sinni á lægstu fargjöldunum.

„Þetta þýðir auðvitað geysilega eflingu á flugstarfsemi félagsins og mikla tekju- og veltuaukningu og það er ánægjulegt að geta greint frá því að okkur hefur tekist að snúa rekstrinum við á þessu ári, þannig að það verði jákvæð afkoma á árinu,“ sagði Birgir.

Iceland Express mun til að byrja með bæta einni flugvél við flugflota sinn og segir Birgir að það nægi til þess að halda uppi þeirri flugtíðni sem nú hafi verið ákveðin.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert