Óviðunandi hávaði í skólamötuneytum

Niðurstöður hljóðmælinga í mötuneytum fimm valinna grunnskóla í Reykjavík sýna meðal annars að háværasta hljóðbil í einum þeirra er mun hærra en gefið er upp í viðmiðunarreglum Umhverfisráðs eða 117 dB (A). „Þetta verður að teljast alvarleg niðurstaða,“ segir Gunnar Kristinsson heilbrigðisfulltrúi sem gerði mælingarnar fyrir Umhverfissvið Reykjavíkurborgar. Þetta kemur fram á vef Umhverfissviðs Reykjavíkurborgar.

Hann segir að háværustu hljóðbil í tveimur öðrum skólum hafi verið mjög nærri hámörkum viðmiðunarreglnanna (108 dB(A) og 109 dB(A)) sem er óviðunandi að hans mati. Niðurstöður sýna að úrbóta er þörf, sérstaklega þar sem um er að ræða daglegt umhverfi grunnskólabarna.

Hollustuhættir Umhverfissviðs Reykjavíkurborgar gerðu hljóðmælingar í október 2005 annars vegar í mötuneytum fimm grunnskóla og hins vegar í spinningsölum fimm líkamsræktarstöðva. Markmiðið var að safna vitneskju um hávaða á þessum stöðum.

„Ef borið er saman meðaltal mælinga kemur í ljós að meðaltal háværasta hljóðbils er hærra í grunnskólunum en á líkamsræktarstöðvum,“ segir Gunnar.

Í kjölfar þessara niðurstaðna hefur verið ákveðið að gera hljóðmælingar strax á næsta ári í öllum mötuneytum grunnskólanemanda í Reykjavík. Auk þess verða gerðar hljóðmælingar í íþróttasölum og í völdum kennslustofum. Munu niðurstöðurnar verða notaðar til þess að skoða hvort og hvar úrbóta sé þörf.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert