Fóstur áa talin á Vestfjörðum

Tveir bændur úr Skaftárhreppi, Elín Heiða Valsdóttir bóndi í Úthlíð og Heiða Guðný Ásgeirsdóttir bóndi á Ljótarstöðum, töldu fóstur í ám í Tungusveit í Strandasýslu á dögunum.

Að því er fram kemur á fréttavefnum strandir.is var fyrir nokkrum árum farið að telja fóstur í ám hér á landi. Er það gert til að hægt sé að koma við hæfilegri fóðrun með tilliti til frjósemi ánna, en þá eru ærnar fóðraðar miðað við fjölda fóstra. Einnig auðveldar þetta mjög vinnu á sauðburði þegar fyrirfram er vitað hvaða ær eru einlembdar og hverjar fleirlembdar.

Elín Heiða og Heiða Guðný fara um Suðurland og vestur á firði í því skyni að telja fóstur í ám fyrir sauðfjárbændur og nota til þess sérstakan tækjabúnað. Eftir góða skorpu í Tungusveit lá leiðin í Önundarfjörð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert