Í gæsluvarðhaldi vegna gruns um stórfelld fjársvik

Hæstiréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjaness um að erlendur karlmaður sæti gæsluvarðhaldi til föstudags vegna gruns um að hann og félagi hans hafi stundað fjársvik hér á landi en 100 þúsund evrur í reiðufé, jafnvirði rúmlega 8,7 milljóna króna, fundust í fórum þeirra þegar þeir ætluðu að fara af landi brott.

Umræddir menn eru frá Nígeríu og að sögn sýslumannsins á Keflavíkurflugvelli leikur grunur á því að mennirnir standi á bak við svokalluð „Nígeríufjársvik“, sem eru oft með þeim hætti að óprúttnir aðilar senda út bréf og koma sér í samband við fólk með þeim hætti víðsvegar um heim. Svo virðist sem að einhver hér á landi hafi bitið á agnið og orðið fórnarlömb þeirra. Unnið er að rannsókn málsins og það kannað hvort mennirnir eigi samverkamenn á Íslandi. Sýslumaðurinn gat lítið tjáð sig um það á þessu stigi í hverju fjársvikastarfssemin er nákvæmlega fólgin utan það að um sé að ræða „blekkingarleik með peninga.“

Fram kemur í dómi Hæstaréttar að verið sé að rannsaka ætluð tengsl nokkurra nafngreindra manna við sakarefnið.

Mennirnir voru stöðvaðir þegar þeir komu til landsins með flugi frá Kaupmannahöfn 16. mars en ábending mun hafa borist frá erlendum lögregluyfirvöldum um að þeir kynnu að hafa fíkniefni meðferðis. Við leit fundust ekki fíkniefni á þeim félögum og var þeim sleppt. Hins vegar kom í ljós að mennirnir höfðu talsvert magn af svörtum bréfmiðum í peningaseðlastærð, joð, vaselín og álpappír og svokallaðan fluorescentlampa, en lítið af peningum.

Lögreglan segist hafa aflað sér upplýsinga frá erlendum lögregluyfirvöldum um að framangreind efni og tæki megi noti til tiltekinna fjársvika og hafi af þeim sökum verið ákveðið að leita á mönnunum þegar þeir færu á ný úr landi. Þegar mennirnir hugðust fara úr landi þann 17. mars fundust á þeim um 100.000 evrur í reiðufé. Lögreglan segir að mennirnir hafi ekki getað gefið trúverðugar skýringar á því hvers vegna þeir höfðu þessa fjármuni meðferðis.

Við leit á hótelherbergi því sem mennirnir dvöldu fundust merki þess að umrædd efni hefðu verið notuð með tilteknum hætti. Því sé fyrir hendi rökstuddur grunur um að mennirnir hafi svikið út fé með þekktri aðferð, en ekki kemur fram í dómi Hæstaréttar hvaða aðferð er vísað til.

Í dómnum kemur fram að grunur leiki á að mennirnir hafi gerst brotlegir við 248. grein hegningarlaga, sem hljóðar svo: „Ef maður kemur öðrum manni til að hafast eitthvað að eða láta eitthvað ógert með því á ólögmætan hátt að vekja, styrkja eða hagnýta sér ranga eða óljósa hugmynd hans um einhver atvik, og hefur þannig fé af honum eða öðrum, þá varðar það fangelsi allt að 6 árum."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert