Íslenskar stúlkur lentu í kúlnahríð

Vinkonur frá vinstri: Katrín Diljá Jónsdóttir, Margrét Malena Magnúsdóttir, Sigrún …
Vinkonur frá vinstri: Katrín Diljá Jónsdóttir, Margrét Malena Magnúsdóttir, Sigrún Helgadóttir og Svanhildur Sif Halldórsdóttir.

Sigrún Helgadóttir gisti ásamt þremur vinkonum sínum á hóteli í úthverfinu Malden skammt fyrir utan Boston fyrir rúmri viku síðan. Stúlkurnar vöknuðu við umgang fyrir utan dyrnar sínar, einhver knúði dyra en þær fóru ekki til dyra og skömmu síðar heyrðu þær þrjá skothvelli. Ein kúlan lenti í hurðinni á herbergi þeirra og önnur fór í gegnum gluggakarm en ekki er vitað um afdrif þriðju kúlunnar. Stúlkurnar lögðust á gólfið og óttuðust að stór gluggi sem þær sváfu undir myndi brotna. Byssumennirnir hurfu á brott og lögreglan kom skömmu síðar og tók skýrslu af stúlkunum.

Au-pair stúlka
Sigrún hefur verið au-pair stúlka hjá fjölskyldu í Hampton í New Hampshire ríki í Bandaríkjunum í sjö mánuði og fékk hún þrjár bestu vinkonur sínar í heimsókn. „Við vorum á ódýru tveggja hæða hóteli með svalagangi og vöknuðum við að það var bankað fast á dyrnar, eitthvað var líka verið að banka hjá nágrönnunum og við heyrðum að verið var að leita að einhverjum. Svo komu allt í einu þrjú byssuskot og maður vissi ekkert hvað var að gerast," sagði Sigrún í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins. Allar eru stúlkurnar um tvítugt.

„Þorðum ekki að kíkja fram"
„Við fórum beint niður á gólf því við vorum alveg undir risaglugga, síðan heyrðum við að fólkið í næsta herbergi kom fram og var að tala um að einhver kærasti hefði verið skotinn. Síðar kom í ljós að það hafði enginn verið skotinn en við vorum svo hræddar að við þorðum ekki einu sinni fram að kíkja," sagði Sigrún af reynslu sinni. Síðar kom í ljós að þarna voru nokkrir grímuklæddir menn á ferð.

Fengu skotnóttina endurgjaldslaust
Þurftu stúlkurnar að skipta um herbergi því lögreglan tók hurðina með sér til rannsóknar og tók Sigrún fram að stúlkurnar hefðu fengið „skotnóttina" endurgjaldslaust.

Lögreglan undraðist hvað fjórar stúlkur frá Íslandi væru að gera í Malden á svo ódýru hóteli. Sigrún sagði að það hefði verið í sparnaðarskyni og að lögreglan hefði sagt „Maður fær það sem maður borgar fyrir."

„Það var smá hrollur í okkur seinni nóttina"
Eftir skotárásina fóru stúlkurnar að skoða sig um í Boston en það vakti furðu blaðamanns að þær skyldu snúa aftur á sama hótelið í Malden og eyða þar annarri nótt. „Við fengum annað herbergi og skotárásarnóttina fría!" sagði Sigrún. „Það var smá hrollur í okkur seinustu nóttina en svo héldum við heim á leið á mánudeginum," sagði Sigrún.

„Það ætti að vara fólk við að fara til Malden," sagði Sigrún að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert