Klæðskerasaumuðum jakkafötum stolið úr bíl

Farið var inn í bifreið, sem stóð við íbúðarhús í Fögrumýri á Selfossi, og úr henni stolið radarvara, svörtum klæðskerasaumuðum jakkafötum, Panasonic myndbandsupptæki og áfengi. Farið var inn í bifreiðina með því að skera í sundur plastdúk sem settur hafði verið í stað rúðuglers sem hafði brotnað nokkru áður.

Sömu nótt var farið inn í ólæsta bifreið í Reyrhaga á Selfossi og úr henni tekin framhlið af útvarpstæki af gerðinni Alpin.

Þeir, sem búa yfir upplýsingum vegna þessara tveggja mála, eru beðnir um að koma þeim á framfæri við lögregluna á Selfossi í síma 480 1010.

Í síðustu viku var einnig tilkynnt um innbrot í vinnuskúr við nýbyggingu í Hraunbæ í Hveragerði. Sá sem þar var á ferð hafði klippt hengilás og farið inn í skúrinn og tekið verkfæri. Verkfæra sem er saknað eru Hitachi borvél, Black og Decker hjólsög, DeWalt leysimælir, leysihallamál og 25 SDS borar ónotaðir. Verðmæti þýfisins er talið vera um 140 þúsund krónur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert