Íslendingar fá eignir varnarliðsins samkvæmt Fréttablaðinu

Bandaríkjamenn munu ekki greiða íslenskum stjórnvöldum sérstakt gjald þegar varnarliðið yfirgefur Keflavíkurflugvöll um næstu mánaðamót samkvæmt heimildum Fréttablaðsins. Íslendingar taka yfir eignir varnarliðsins hér á landi sem greiðslu fyrir hreinsun og annan kostnað sem til fellur vegna brottfarar hersins. Verður stofnað sérstakt hlutafélag sem mun ráðstafa þessum eignum samkvæmt ákvörðun pólitískt skipaðrar stjórnar.

Samningur um viðskilnað Bandaríkjamanna á Keflavíkurflugvelli og áframhaldandi varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna verður kynntur í dag. Eftir ríkisstjórnarfund hittir Geir H. Haarde forsætisráðherra formenn allra stjórnmálaflokka, síðan gengur hann á fund utanríkismálanefndar í Þjóðmenningarhúsinu og hittir fréttamenn að því loknu, að því er segir í Fréttablaðinu í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert