Hálslón fullt af bleikju og griðastaður gæsa

Hálslón 18. okt. s.l.
Hálslón 18. okt. s.l. Morgunblaðið/ RAX
Eftir Steinunni Ásmundsdóttur steinunn@mbl.is
Höfn | Hálslón verður griðastaður heiðagæsa í sárum og lónið fengsælt veiðivatn þegar fram í sækir. Þetta segir Sverrir Scheving Thorsteinsson, jarðfræðingur og jöklafræðingur á Höfn í Hornafirði, sem stundað hefur veiðar á hálendinu norðan Vatnajökuls í áratugi og ferðast mörgum sinnum um svæðið þvert og endilangt.

"Ég hef oft verið að hugsa um þessi mál sem jarðfræðingur og jöklafræðingur og í fyrstunni hallaðist ég að því að þarna væri verið að fara illa með land," sagði Sverrir í samtali við Morgunblaðið. "Þegar grannt er skoðað eru þó jákvæðir fletir á málinu. Mín skoðun á þessu byggist á því að ég er veiðimaður, búinn að vera með byssu í hendinni í meira en hálfa öld og drepa gæsir, rjúpur og hreindýr þarna. Ég hef veitt í vötnum og lækjum alveg upp undir jökli margoft, ýmist dorgað eða hent út neti og alltaf fengið vænan silung. Einnig þekki ég vötn sem myndast hafa í lónstæðum erlendis og veit að betri veiðistaðir eru varla til. Hálslón mun fyllast af fiski þegar fram líða stundir og þar mun verða stór bleikja, án þess að nokkur ræktun eð grisjun komi til. Það renna svo margir lækir og ár sem full eru af smáfiski í Hálslón að það er enginn vafi í mínum huga að þarna verður fiskur. Aurgruggið úr Jöklu mun ekki koma í veg fyrir það."

Engin vörn betri fyrir tófunni

"Annað sem er jákvætt í mínum huga við lónið er að það mun verða gríðargott verndarsvæði fyrir heiðagæs sem verpir þarna, bítur meira gras en við látum okkur detta í hug og er í tugþúsunda tali á þessu svæði. Gæsirnar þurfa vörn þegar þær fara í felli, þ.e. eru í sárum og ófleygar. Engin vörn er betri fyrir allar þessar þúsundir fugla heldur en stórt og gott stöðuvatn. Hvorki tófan né maðurinn ná í þær þar, nema einhver bófi á hraðbát elti þær, en það þekkist nú á Lagarfljótinu líka. Ég á satt að segja von á að áhrifasvæði Kárahnjúkavirkjunar verði gjöfular veiðilendur og gott verndarsvæði."

Sverrir segist ekki hafa velt afdrifum hreindýranna á svæðinu fyrir sér sérstaklega en að hans mati aðlagi þau sig eins og fuglar alveg ótrúlega. Þau virðist sætta sig við umferð, lyktarskynið sé í fyrirrúmi en sjón takmörkuð og hann sé því ekki hræddur um að dýrin svelti eða flýi langt í burtu.

"Þetta er þversniðið af því sem mér finnst vera jákvætt. Öll umræða um Hálslón og Kárahnjúkavirkjun hefur verið mjög neikvæð og það má að ósekju skjóta því inn á ská til fólks að þarna séu nokkrir jákvæðir punktar sem vert sé að skoða með opnum huga án þess að láta fordóma vera í vegi fyrir sér. Mannanna verk og náttúran aðlagast gjarnan og svo verður einnig í þessu tilfelli."

Í framhjáhlaupi segist Sverrir aldrei þessu vant ekkert hafa veitt í haust því hann búi sig undir uppskurð á byssuöxlinni. Hann eigi hins vegar nóg af byssum til að fægja og snurfusa enda ötull byssusafnari til margra ára sem taki öllum gömlum byssum fagnandi. Synir hans muni væntanlega færa honum villibráð í jólamatinn þetta árið í sárabætur enda byssumenn eins og faðir þeirra.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert