Heimdallur telur tillögur varðandi fjármál flokka ganga of langt

Stjórn Heimdallar telur að tillögur varðandi fjármál stjórnmálaflokka og prófkjöra gangi alltof langt og feli í sér óréttmæta skerðingu á rétti hins almenna borgara til að styðja við stjórnmálastarfsemi.

„Þá fela reglur um hámarkskostnað í prófkjörum í sér beina takmörkun á möguleikum frambjóðenda og þeirra sem vilja kynna málefnaáherslur sínar og baráttumál í tengslum við prófkjör. Það er beinlínis hluti af lýðræðinu að frambjóðendur hafi svigrúm til að kynna sig og stefnumál sín og óskiljanlegt hvers vegna ríkisvaldið telji sig þurfa að takmarka þennan rétt.

Tillögur nefndarinnar fela í sér að staða núverandi stjórnmálamanna- og flokka styrkist verulega á kostnað þeirra sem síðar munu koma. Verðandi nýliðar í prófkjörum flokkanna munu sæta takmörkunum á því hve rækilega þeir geta kynnt sig á meðan sitjandi stjórnmálamenn njóta góðs af því að vera þekktir fyrir. Sama máli gegnir um stjórnmálaflokka sem fyrir eru en aukin ríkisframlög veita þeim aukið forskot í samkeppni við nýja flokka og framboð.

Þar að auki setur stjórn félagsins spurningamerki við ástæðurnar fyrir þessum reglum. Í skýrslu nefndarinnar segir að sífellt fleiri einstaklingar og fyrirtæki hafi fjárhagslega burði til að kosta baráttu flokka eða stjórnmálamanna. Á meðan ekki liggja fyrir bein dæmi um óeðlilegar tilraunir til að hafa áhrif á stjórnmálamenn og nefndin virðist ekki hafa annað fyrir sér en óljósa tilfinningu, er óréttlætanlegt að ráðast út í svo viðamiklar takmarkanir á lýðræðislegum rétti borgaranna.

Stjórn Heimdallar telur hins vegar réttlætanlegt að framlög til stjórnmálaflokka séu upplýsingaskyld upp að vissu marki, en telur hins vegar mikilvægt að slíkar upplýsingar séu þó ekki öllum aðgengilegar og liggi ekki á glámbekk, líkt og t.d. er raunin með upplýsingar um tekjur Íslendinga. Eðlilegt væri að ákveðin stofnun, t.d. Ríkisendurskoðun, hefði slíkt eftirlitshlutverk með höndum og færi með framlögin sem persónuupplýsingar en gæti beitt sér ef grunur leikur á um að verið sé að reyna að hafa óeðlileg áhrif á stjórnmálaflokka eða menn.

Félagið skorar á þingmenn að skoða málið í rólegheitunum. Það á ekki að vera kappsmál flokkanna að keyra slíkt grundvallarmál í gegn á sem skemmstum tíma eða til að tryggja sér aukin fjárframlög fyrir næstu kosningar," að því er segir í ályktun Heimdallar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert